Vestmannaeyjaferjan Herjólfur byrti á facebook síðu sinni í gærkvöldi að næstu þrjà daga, 5-7. nóvember, mun Herjólfur III sigla í stað Herjólfs IV. Ástæða þess er sù að næstu þrjà daga verður unnið við hleðsluturnana í Herjólfi IV svo hægt verði að byrja að hlaða skipið rafmagni.

Verkið hefur tafist en til stóð að klára það í október. Sérfræðingar frá ABB vinna nú við hleðsluturnana. “Það var gert ráð fyrir að þessi vinna hæfist fyrir mánaðarmót en hún hefur eitthvað dregist. Ég geri svo ráð fyrir þegar þessari vinnu er lokið að afli verði hleypt á kerfi ferjunnar,” sagði Guðbjartur Ellert Jónsson í samtali við Eyjafréttir.

Rafknúnar ferjusiglingar

Raforka hefur nokkuð lengi verið notuð í skipum en þær lausnir sem hafa verið til í raforkuhleðslum hafa takmarkast við langan bryggjutíma enda tími sem fer í að tengja og aftengja. Tiltölulega stutt er síðan farið var að þróa rafhleðslulausnir fyrir rafmagnsferjur í áætlunarsiglingum sem þarf að hlaða hratt og koma svo af stað aftur eftir skamman tíma.

Vegna skipshreyfinga í Landeyjahöfn var lausnin frá Stemman-Technic valin í Herjólf en hún hefur reynst einna best af þeim lausnum sem til eru.

mynd: vegagerðin

Rafhlöður með 7 til 8 ára líftíma

Rafhlöður í skipinu eru af gerðinni Litíum- Nikkel-mangan-kóbalt Oxíð, (NMC) með grafít forskaut en framleiðandi þeirra er LG Chem. Uppsett afl er 2983 kWh ; 800 – 1100 VDC. Þessar rafhlöður eru svipaðar og í sumum rafmagnsbílum og geta orðið fyrir orkutapi vegna kulda, en hins vegar hefur kuldinn jákvæð áhrif á endingu.

Líftími rafhlaðanna er sagður 10 ár að tilteknum vissum forsendum. Reiknað hefur verið út að við þær aðstæður sem uppi eru við Íslandsstrendur og miðað við uppsetta siglingaáætlun Herjólfs sé líklegt að líftími rafhlaðanna sé nær 7 til 8 árum. Ef ferðum fjölgar er líklegt að líftími þeirra styttist enn meir.

mynd: vegagerðin