Vestmannaeyjabær og Fiskeldi Vestmannaeyja hafa undirritað viljayfirlýsingu um samvinnu, velvilja og áhuga á að setja á fót fiskeldisstöð á landi í Vestmannaeyjum. Málið er á frumstigi en þáttur Vestmannaeyjabæjar lýtur fyrst og fremst að ráðgjöf og breytingum á deiliskipulagi, hugsanlegri nýtingu varma frá fyrirhugaðri sorporkustöð og innviðauppbyggingu í tengslum við framkvæmdina, að því er segir á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar.

Þáttur Fiskeldis Vestmannaeyja er bundinn við áætlanir varðandi staðsetningu, stærð, umhverfisáhrif, umfang viðskipta, fjölda starfa, aðkomu fjárfesta og annarra samstarfsaaðila.

Bæjaryfirvöld hafa fagnað frumkvæði Fiskeldis Vestmannaeyja og segja ánægjulegt að fyrirtæki komi auga á sóknarfæri í Vestmannaeyjum og stuðli þannig að aukinni fjárfestingu, uppbyggingu og fjölgun starfa, en jaframt að verndun og virðingu við umhverfið.

Orð til alls fyrst

Að Fiskeldi Vestmannaeyja standa Hallgrímur Steinsson, framkvæmdastjóri fiskþurrkunarfyrirtækisins Löngu í Vestmannaeyjum, og Daði Pálsson.

„Málið er í forathugun. Næst er að kanna hvort einhverjir möguleikar eru hérna á landi til þessarar starfsemi og skoða hvort yfirleitt sé raunhæft að gera þetta,“ segir Hallgrímur.

Hann segir verkefnið spennandi enda sé fiskeldið atvinnugrein með mikla vaxtarmöguleika.

„Okkur finnst áhugavert að sjá hvort hægt sé að teikna upp svona fyrirtæki. En það er margt sem þyrfti að sigrast á áður en að þetta gæti ræst og þar má nefna þætti eins og vatnsöflun. Samkomulagið við Vestmannaeyjabæ felur í sér að hann yrði okkur innan handar með skipulagsmál og þess háttar. Engu er hægt að spá um hvenær einhver skriður gæti komist á málið. Það sem vakir yfir okkur er að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu hérna í Vestmannaeyjum. Að ná að setja fram góða viðbót inn í samfélagið. Það er ekki víst að neitt gerist frekar í þessu en orð eru til alls fyrst,“ segir Hallgrímur.

fiskifréttir.is greindi frá