Það fyrsta sem kemur í hugann eftir kosningaúrslitin um helgina, er fyrst og fremst þakklæti og auðmýkt vegna alls frábæra stuðnings sem við hjá Flokki fólksins fundum fyrir í kosningabaráttunni út um allt land.
Fyrir mig persónulega, þá fannst mér ótrúlega frábært að sjá stóran hóp af ættingjum mínum í Reykjanesbæ mæta á fund hjá okkur þar og lýsa yfir fullum stuðningi við mig. Hér í Eyjum fékk ég endalaus skilaboð um stuðning og kveðjum, sem yljuðu svo sannarlega.
Við í Flokki fólksins erum svo sannarlega sigurvegarar kosninganna, það að fara úr 2 þingmönnum í 6 er einfaldlega frábært. Svolítið skrýtið reyndar að horfa á það, að í suðurkjördæmi fá Sjálfstæðis og Framsóknarmenn sitthvora 3 þingmenn út á 7000 atkvæði hvor, en við aðeins 1 fyrir tæp 4000 atkvæði, en ekki ætla ég að reyna að útskýra þetta kosningakerfi. En annars frábært að Ásthildur Lóa Þórsdóttir sé 3. þingmaður suðurkjördæmis.
Varðandi sjálfan mig, þá skil ég vel að margir séu svekktir á því að ég hafi ekki náð inn, enda munaði ekki miklu, en ég bjóst sjálfur aldrei við því,án þess að fara nánar út í það.
Varðandi framhaldið, þá að sjálfsögðu hélt meirihlutinn velli og að sjálfsögðu óska ég þeim til hamingju með það. Ég vildi að sjálfsögðu sjá breytingar, en það verður forvitnilegt að sjá hvort fráfarandi meirihluti lifir áfram, enda augljóst, ef við horfum bara á muninn á þessum flokkum út frá hálendisþjóðgarði, þá er augljóst að það ber mikið á milli, en einhvernvegin virðast hlutirnir samt stundum fara þannig að stefnan lendi stundum milli skips og bryggju þegar stólar eru í boði.
Varðandi hagsmuni smábátasjómanna, þá hef ég verulegar áhyggjur af því, hvað þessi niðurstaða þýði fyrir þá. Einnig er augljóst að með þessari niðurstöðu, þá lýkur draumi trillukarlsins þó svo að trillukarlar eigi nú stuðning í öllum flokkum.
Góðu fréttirnar eru þær að öryrkjar, aldraðir og fátækt fólk á Íslandi stendur mun betur að velli með fjölgun þingmanna Flokks fólksins og það er bara frábært. Baráttan er hins vegar rétt að byrja, en það er klárlega ljós í myrkrinu.
Kærar þakkir allir fyrir þennan frábæra stuðning, þar til næst.
Virðingarfyllst
Georg Eiður Arnarson, varaþingmaður
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst