Höfundur og flytjandi Þjóðhátíðarlags Vestmannaeyja 2022 er Klara Elias söngkona og lagahöfundur. Aðeins einu sinni áður hefur hið opinbera þjóðhátíðarlag verið samið og flutt af konu og var það lagið og var það lagið Sjáumst þar eftir Röggu Gísla árið 2017. Þetta kemur fram á visir.is í morgun.

Klara, heitir Klara Ósk Elíasdóttir og hefur starfað sem söngkona síðan í menntaskóla og flutti aftur heim til Íslands í heimsfaraldrinum eftir að búa og starfa í Los Angeles í nokkur ár. Hún vinnur nú að útgáfu nýrrar plötu sem kemur út á næstu mánuðum. „Lagið heitir Eyjanótt. Ég samdi lagið með Ölmu Guðmundsdóttur og James Wong sá um upptökustjórn ásamt mér. Við tókum upp lagið í LA og ég kláraði upptökur hérna heima líka,“ segir Klara í samtali við Lífið á Vísi.

Lagið Eyjanótt kemur út 7. júní, tæpum tveimur mánuðum fyrir Þjóðhátíð í Eyjum. „Það skipti mig máli að ná að fanga nostalgíuna sem við upplifum þegar sumarið kemur aftur og fiðringinn í magann sem maður fær þegar maður labbar inn í dalinn í Vestmannaeyjum,“ segir hún um lagið.