Það verður aldrei sagt um tónleika Karlakórs Vestmannaeyja í Höllinni í gærkvöldi að þeir hafi farið út í veður og vind sem var yfirskrift tóneikanna. Vel var mætt og kallarnir í miklu stuði studdir af Kytti Kovács, frábærum undirleikara og stjörnuhljómsveit. Þórhallur Barðason, stjórnandi lék við hvurn sinn fingur og Ágúst Halldórsson fór óhefðbundnar leiðir sem kynnir. Útkoman, skemmtilegir tónleikar þar sem tónlistarfólk og gestir mynduðu eina heild.

 

Þórhallur á þakkir skildar fyrir gott starf með Karlakórnum sem er og verður vonandi sem lengst sannur gleðigjafi í annars fjölbreytt menningarlíf Vestmannaeyja. Það var farið út um víðan völl í lagavali en það var tvennt sem stóð upp úr, lög Sæþórs Vídó Bæjaróður  og Beddi og syrpa með lögum Bjartmars Guðlaugssonar.

Bæjaróður er ljúfur óður til Vestmannaeyja þar sem Sæþór á líka textann. Fetar hann í fótspor afa síns, Núma Þorbergssonar sem samdi texta við þekkt dægurlög um og eftir miðja síðustu öld. Ekki er síðra lagið við texta Snorra Jónssonar um hann Bedda, Bergvin Oddsson oftast var kenndur við Glófaxa VE. Einstakur maður sem mun lengi lifa í minningunni. Í laginum um Bedda Sæþór settist við flygilinn og söng og var vel fagnað.

Bjartmar er og verður einn af sonum Vestmannaeyja og því verðum við að halda á lofti. Ekki bara frábær lagahöfundur heldur eitt okkar besta ljóðskáld sem nær að spegla samtímann öðrum betur. Dæmi um það eru Týnda kynslóðin og Fúll á móti.

Hljómsveitin er ekki af verri endanum, Birgir Nielsen, trommari, flestum öruggari, Seyðfirðingurinn Magnús R. Einarsson sem er á góðri leið með að verða Eyjamaður fór fimum fingrum um gítarinn, Þórir Rúnar Geirsson sem framkallar gæsahúð með frábærum leik á bassann og síðast en ekki sístur er Þórir Ólafsson, hljómborðsleikari  sem hefur verið kjölfesta í tónlistarlífi Eyjanna undanfarin ár.

Stjarna fæddist þegar Andri Hugo Runólfsson steig fram og söng með kórnum, Loksins ég fann þig og var vel fagnað.

Tónleikarnir voru skemmtun sem stóð undir nafni og mikið getum við Eyjamenn verið þakklát fyrir að eiga þetta frábæra tónlistarfólk sem gerir falleg sumarkvöld ennþá bjartari. Þar er hún Kitty ofarlega á blaði ef ekki efst.

Ómar Garðarsson.