Aðeins einu marki munaði, 30:31, í fjórða leik úrslitakeppninnar í handbolta karla þar sem Valur stóð uppi sem sigurvegari og varð um leið Íslandsmeistari 2022. Leikið var í Vestmannaeyjum og var leikurinn frábær frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu. Stemningin í Íþróttamiðstöðinni, þar sem stuðningsmenn beggja liða gerðu hvað þeir gátu til að hvetja sína menn var eins og hún getur orðið best.

Leikurinn var jafn allan tímann og spennandi og í hálfleik var staðan 15:16 gestunum í vil. Valur komst tvisvar í þriggja marka forystu en Eyjamenn voru ákveðnir í að selja sig dýrt. Í lokin var það frábær markvarsla Björgvins Páls í marki Valsmanna sem skildi liðin að.

ÍBV-liðið sem heild stóð sig frábærlega en athygli vakti góð frammistaða Elmars Erlingssonar sem ískaldur skoraði úr öllum vítaskotum og fór illa með landsliðsmarkvörðinn á stundum.

Um leið og Valsmönnum er óskað til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn er full ástæða til að hrósa Eyjamönnum sem sýndu og sönnuðu að þeir áttu fullt erindi í úrslitin. Eru auk þess skemmtilegasta liðið eins og svo oft áður og hvaða lið á betri stuðningsmenn?

Já, það er sárt að tapa en þessi árangur sýnir að ÍBV-íþróttafélag, Erlingur þjálfari og hans fólk og leikmenn allir eru stolt okkar Eyjamanna.