„Í kjölfar greinar sem ég skrifaði og birt var á Eyjamiðlunum 4. apríl sl. þá vil ég skora á bæjarráð að snúa til baka þeirri ákvörðun sem tekin var fyrir líklega 12 til 13 árum, þar sem ákveðið var að setja flest fjöllin á Heimaey í sérstakt veiðifélag og að aðrir en þeir sem væru í þessu félagi fengju því eingöngu að veiða lunda í Sæfelli,“ segir Egill Arnar Arngrímsson í bréfi til bæjarráðs sem tekið var fyrir á fundi ráðsins þann níunda júní.

Hann segir ákvörðunin hafi ekki verið góð og hafi elst illa. „Það er nákvæmlega ekkert sem kallar á að allir þurfi að vera í sama veiðifélagi til að veiða á heimalandinu. Það eru engin öryggissjónarmið sem kalla á það og allir veiðimenn þurfa að skila inn veiðiskýrslu til Umhverfisstofnunar. Eins og áður segir þá skora ég á bæjaryfirvöld að breyta þessu og skila almenningi fjöllunum,“ segir Egill.

Í fundargerð segir að ráðið hafi tekið fyrir ernindi Egils frá 4. maí sl. þar sem skorað er á bæjaryfirvöld að breyta reglum um lundaveiðar þannig að veiði verði gerð frjáls á öllum svæðum á Heimaey.

Niðurstaða bæjarráðs er að núverandi fyrirkomulagi veiða á Heimaey hafi verið  komið á árið 2008 að frumkvæði bæjaryfirvalda til þess að bregðast við minnkandi lundastofni í Vestmannaeyjum og ná betri stjórn og yfirsýn yfir veiðarnar.

„Veiðimenn hafa auk þess undanfarin ár verið hvattir til þess að halda veiðinni í lágmarki og láta lundann njóta vafans. Mikilvægur liður í þessu er að hafa í gildi reglur um nytjarétt, bæði í úteyjum sem og á Heimaey. Bæjarráð telur ekki ástæðu til þess að breyta reglum um veiðar á lunda á Heimaey að svo stöddu þar sem reynslan af þessu fyrirkomulagi hefur reynst vel,“ segir í fundargerðinni.