Það eitt að sjá stúku Hásteinsvallar þéttsetna í úrslitaleik Orkumótsins í gær sýnir mikilvægið og þá virðingu sem Orkumót ÍBV hefur áunnið sér í gegnum tíðina. Margt af okkar fremsta knattspyrnufólki nefnir mótin í Eyjum sem eina af þeirra stærstu stundum á knattspyrnuvellinum.

Orkumótið í ár er engin undantekning þar á og strákarnir í  FH og Stjörnunni munu seint eða aldrei gleyma því að ganga inn á völlinn. Umgjörðin eins og sæmir úrslitaleik og spenna í loftinu.

Strákarnir í FH sýndu hvað í þeim bjó og sigruðu Stjörnuna 3:1 sem getur vel við unað, því það eitt að komast í úrslitaleik Orkumótsins er afrek út af fyrir sig.

 

Myndir: Sigfús Gunnar.