Laugardaginn 8. október kl. 12-13 bjóðum við upp á Sögu og súpu. Að þessu sinni kemur í heimsókn Halldór Svavarsson, seglasaumari og áhugamaður um sögu, sem fæddist í Byggðarholti, Kirkjuvegi 9b, í Vestmannaeyjum árið 1942.

Strand Jamestown er fjórða bók höfundar og fjallar um endalok eins stærsta seglskips í heimi á 19. öld en það strandaði við Hafnir á Reykjanesi árið 1881. Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður á Sæbjörgu VE, var sérstakur áhugamaður um sögu skipsins þar sem akkeriskeðjurnar úr skipinu voru fluttar til Eyja og notaðar áratugum saman sem bólfæri fyrir fiskibáta í höfninni. Sýnishorn af keðjunum má sjá fyrir framan anddyri Safnahússins.

Í spjalli sínu mun Halldór rekja hina stórmerkilegu sögu skipsins sem allt of fáir þekkja. Þegar skipið strandaði var það orðið mannlaust. Hvað varð um áhöfnina? Hver átti skipið? Hvaðan kom það? Hvers konar skip var þetta?

Sagan af Jamestown er saga um örlög 4.000 tonna risaskips sem strandar í flæðarmálinu í Reykjanesi, fulllestað af unnum eðalvið, furu, sem átti að fara undir járnbrautarteina á Englandi. Hvað varð um þessi ótrúlegu verðmæti sem flutu upp á land? Kynslóðum saman hafa sögur gengið, hér eru þær loks teknar saman í spennandi og lipurlegri bók sem Halldór Svavarsson kynnir í Sagnheimum á laugardaginn.

ALLIR HJARTANLEGA VELKOMNIR.