Bæjarstjórn Vestmannaeyja staðfesti í gær tillögu bæjarráðs Vestmannaeyja um ráðningu Drífu Gunnarsdóttur í starf framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs. Þetta kemur fram á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar. Drífa skiptir um stól því fyrir var hún fræðslufulltrúi og framkvæmdastjóri fjölskyldu og fræðslusviðs.

Um Drífu segir: Drífa lauk diplómaprófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands, áður hafði hún lokið B.Ed. prófi í grunnskólafræðum, með íslensku sem sérsvið, frá Kennaraháskóla Íslands og M.Ed. meistaragráðu frá Háskóla Íslands.

Drífa hefur í störfum sínum borið ábyrgð á verkefnum á sviði fjármála og reksturs. Hún hefur heildstæða reynslu af fjármálum í gegnum rekstur fjölskyldufyrirtækis og sem fræðslufulltrúi Vestmannaeyjabæjar.

Drífa hefur reynslu af áætlanagerð og eftirfylgni áætlana bæði fjárhagsáætlana og starfsáætlana. Hún hefur undanfarið komið að rekstri stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar. Drífa starfaði sem deildarstjóri með mannaforráð í grunnskóla í níu ár. Hún hefur starfað sem fræðslufulltrúi Vestmannaeyjabæjar síðastliðin ár og hefur undanfarið leyst af framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs bæjarins. Hún hefur í störfum sínum leitt og stýrt hópum, teymum og skipulagsheildum þvert á starfsemi, m.a. sem stjórnandi í grunnskóla og sem fræðslufulltrúi Vestmannaeyjabæjar.

Drífa hefur lagt áherslu á samvinnu og samskiptafærni í námi og störfum og hefur verið farsæl í samskiptum og sem leiðtogi. Drífa hefur viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu og þekkir hún vel til opinberrar stjórnsýslu, stjórnsýsluréttar og persónuverndarréttar. Sem fræðslufulltrúi sveitarfélags þekkir Drífa vel til fræðslumála sveitarfélagsins sem er stærsti og umfangsmesti málaflokkur þess.

Þá hefur hún sem starfandi framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs undanfarnar vikur öðlast víðtækari þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu og málefnum sveitarfélagsins en í því starfi hefur hún verið bæjarstjóra til aðstoðar, svarað erindum, sinnt starfsmannahaldi og starfi ritara í bæjarráði og bæjarstjórn.

Drífa er skipulögð, býr yfir góðri hæfni í samskiptum og leiðtogahæfileikum. Hún er sjálfstæð í vinnubrögðum, sýnir frumkvæði og er lausnamiðuð í störfum sínum. Hún hefur gott vald á íslensku og ensku.

Drífa Gunnarsdóttir var metin hæfasti umsækjandinn um starfið. Sú ákvörðun var byggð á heildstæðu mati á því hvernig hún uppfyllir hæfniskröfur sem komu fram í auglýsingu um starfið.

Vestmannaeyjabær býður Drífu hjartanlega velkomna til starfa á nýjum vettvangi.