„Fram til ársins 2010 var reksturinn í jafnvægi en frá sama ári hefur raforkukostnaðurinn til fjarvarmaveitunnar í Eyjum hækkað um 250%. Á sama tíma hefur gjaldskrá hitaveitunnar hækkað um 80% en milli 80% og 90% af útgjöldum fjarvarmaveitunnar eru orkukaupin,“ segir Ívar Atlason, Svæðisstjóri vatnssviðs Vestmannaeyjum við Eyjafréttir sem ræddu við hann í október sl. um 7,9% hækkun á heita vatninu í Vestmannaeyjum og lækkun á hita á vatni frá kyndistöð .

Það fáránlega er að raforkusparnaður með tilkomu Sjóvarmadælustöðvarinnar sem tekin var í notkun árið 2019 og orðinn er 170 GWH skilaði sér aldrei til Eyja. Um þetta sagði Ívar:  „Verðmæti þessarar raforku er um 2,5 milljarðar króna á verði tryggrar orku. Hvorki Vestmannaeyringar eða HS Veitur hafa notið einnar krónu af þessum sparnaði. Vegna raforkuskerðingar frá Landsvirkjun og bilana á rafstrengjum Landsnets milli lands og Eyja 2014, 2017, 2022 og 2023 hefur þurft að nota mikla olíu sem kostar sitt.

Uppsafnað tap er um 600 milljónir sem má rekja til orkupakka 1 og 2, þar sem framleiðslu, sölu, flutningi og dreifingu raforku var skipt upp og fjarvarmaveitan skikkuð til að kaupa raforku á markaði en gat ekki samið við Landsvirkjun beint eins og var fram að 2010 og mikillar keyrslu á olíu,“ sagði Ívar.

Mynd – Norrænir blaðamenn heimsóttu Sjóvarmadælustöðina haustið 2022 og fannst mikið til. Er hún sú næst stærsta í heimi.