„Umskiptin sem ég sá og skynjaði í bandarísku samfélagi komu þægilega á óvart og lofa góðu. Deyfð, drungi og samdráttareinkenni í efnahagslífi í Boston og nágrenni í mars í fyrra höfðu vikið fyrir mjög auknum umsvifum og bjartsýni. Ég kom því heim núna með allt aðra og betri tilfinningu í maganum en gera mátti ráð fyrir.

Við styrktum viðskiptasambönd og hittum líka fulltrúa fyrirtækja sem vantar fisk til að selja, bæði ferskan og frosinn. Þar gætu orðið við ný viðskiptatengsl.

Ég hef staðreynt um árabil mikinn stöðugleika á markaði með fisk í Bandaríkjunum og það á bæði við um magn og verðlag. Undanfarin ár hefur fiskverð hins vegar sveiflast meira en dæmi eru um áður. Ekki er auðvelt að greina ástæðuna en ég hef mínar kenningar um það.

Núna er bjartara yfir öllu þar vestra og Boston er á leiðinni að verða á ný sú borg sem ég þekkti fyrir COVID.“

Albert Erluson, framkvæmdastjóri Hólmaskers ehf. í Hafnarfirði, er nýkominn heim af stærstu sjávarútvegssýningu Norður-Ameríku, The Boston Seafood Show, árlegum viðburði í marsmánuði. Vinnslustöðin og dótturfélög hennar, Leo Seafood og Hólmasker, sýndu sig þar og sáu aðra undir merkjum VSV Seafood Iceland á þjóðarbási sem Íslandsstofa skipulagði. Þarna voru yfir 1.200 sýnendur frá 49 ríkjum víðs vegar að úr veröldinni að kynna vörur sínar, tæki og tól og ræða saman á málstofum og ráðstefnum af öllu tagi.

Sýningin sem slík skilaði því sem vonir stóðu til og styrkti tengsl sem fyrir voru. Á sýningunni og utan hennar áttu Vinnslustöðvarmenn líka fundi sem gætu orðið upphaf nýrra viðskipta. Hver veit. Orð eru til alls fyrst í þeim efnum sem öðrum.

Þrír fjórðu hlutar ýsu VSV til vinnslu í Hólmaskeri

Framkvæmdastjóri Hólmasker er á heimavelli viðskipta á austurströnd Bandaríkjanna. Þar er helsta markaðssvæði fyrirtækisins sem hægt er í grófum dráttum að segja að sé frá borginni New York austur um ríkin Massachusetts, New Hampshire og Maine. Gleymum ekki Flórída. Þangað hafa heldri borgarar flutt af austurstöndinni og þeir vilja geta gengið að ýsu á matseðlum veitingahúsa og í fiskborðum stórmarkaða. Matarhefðin er rík og sterk.

Albert var árlega á Boston Seafood-sýningunni frá 2007 til 2019, þá sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins Ísfisks í Kópavogi. Eftir COVID-hlé sækir hann sýninguna fyrir hönd Hólmaskers og Vinnslustöðvarinnar. Hann þekkir því vel til mála í viðskiptum með fisk á þessum slóðum og hræringum í bandarísku efnahagslífi og samfélagi.

Aðalviðskiptavinurinn lengst af er og hefur verið High Liner Food, kanadískt fyrirtæki sem fimm bræður stofnuðu um saltfiskverkun í Nova Scotia á Nýfundnalandi 1899 og er nú stærsti seljandi tilbúinna, frosinna sjávarrétta til stórmarkaða og þjónustufyrirtækja í veitingarekstri í Bandaríkjunum.

Vaskir starfsmenn Hólmaskers handflaka ýsu daginn langan og flökin fara vestur um haf fersk eða frosin, flugleiðis eða sjóleiðis, til High Liner og áfram til þeirra sem kunna gott að meta á diskunum sínum.

Ætla má að 75-80% ýsunnar sem flökuð er og seld frá Hólmaskeri á árinu 2024 berist af skipum Vinnslustöðvarinnar en 20-25% séu keypt á markaði. Starfsmenn Hólmaskers eru um 40 talsins og framleiða árlega um 4.000 tonn af fiski.

Vinnslustöðin keypti 75% hlut í Hólmaskeri af hjónunum Alberti Erlusyni og Jóhönnu Steinunni Snorradóttur árið 2021. Þau eiga 25% hlut í fyrirtækinu. Hólmasker var stofnað um rekstur sem áður var á vegum Stakkholts ehf. á sama stað í Hafnarfirði. Hólmasker keypti eignir Stakkholts og allt starfsfólk Stakkholts var ráðið til starfa hjá Hólmaskeri.

Verðsveiflur án sögulegrar hliðstæðu

„Þegar við hófum starfsemi Hólmaskers var útflutningur til Bandaríkjanna svipaður og áður og verð afurða sömuleiðis. Svo tók verð að hækka á COVID-tímanum og náði sögulegum hæðum, allt að 20% yfir því sem dæmi voru um áður. Verðið hækkaði allt árið 2022 en lækkaði svo í skrefum á árinu 2023 og var um síðustu áramót orðið lægra en það var fyrir COVID.

Slíkum stórsveiflum hefi ég aldrei kynnst fyrr á þessum markaði og á ekki einfalt svar við því hver ástæðan kunni að vera. Verðhækkunina skýri ég helst með peningaprentun og því að fólk hafði hægt um sig og ferðaðist ekki á COVID-tímanum. Það hafði óvenju mikla fjármuni úr að spila og vildi gera vel við sig í mat.

Svo gjörbreyttust aðstæður 2023. Peningaprentun var hætt, vextir hækkuðu, bensínverð rauk upp, húshitunarkostnaður sömuleiðis og öll matvara. Rekstrarkostnaður fyrirtækja jókst og kaupmáttur fólks rýrnaði verulega.

Þegar við sóttum Boston Seafood-sýninguna í mars í fyrra mætti okkar ástand sem var algjörlega framandi. Við höfðum kynnst Boston sem líflegri borg með mikilli umferð, akandi og gangandi, ys og þys um stræti og torg, þéttskipuðum veitingahúsum öll kvöld og annríki í verslunum.

Allt annað blasti við í mars 2023: lítil umferð, fátt fólk á ferli, gamalgrónar verslanir lokaðar vegna gjaldþrota, fámennt á veitingahúsum.

Það var beinlínis áfall að fara um kunnuglegar slóðir í borginni og sami drunginn var yfir Boston Seafood.

Ég staldra sérstaklega við vinnustaðamenninguna sem til varð í COVID og áfram við lýði 2023. Fólk fór að vinna heima hjá sér, sjálfviljugt eða að ósk atvinnurekandans, og hélt því áfram að faraldri loknum. Heimavinnandi fólk fer ekki á veitingahús í hádeginu og ég er á því að þessi breyting lífshátta hafi beinlínis hægt á sjálfu efnahagslífinu. Vilji Bandaríkjamenn fá góðan fisk að borða fara þeir miklu frekar á veitingahús en að kaupa hráefnið í pakkningum í stórmarkaði og reyna að elda sjálfir.

Núna í mars 2024 blasti við önnur og kunnuglegri mynd í Boston og kom á óvart hve mikil breytingin er á einu ári. Mikil umferð, nýjar verslanir komnar í stað þeirra sem fóru á hausinn, veitingastaðir þéttsetnir kvöld eftir kvöld. Bjartara yfir samfélaginu í öllum skilningi. Boston er komin að minnsta kosti hálfa leið í átt að því sem borgin áður var.

Ég þekki sjálfur dæmi um fólk sem gafst upp á að vinna heima, fannst allt leiðinlegt og neikvætt við að umfangast ekki vinnufélaga sína daglega á vinnustað og fara ekki með þeim út að borða í hádeginu. Heimavinna hentar vissulega sumum en öðrum alls ekki.

Góð tíðindi fyrir okkur því veitingahús eru sá markaður fisks sem borgar best!“

Lokað til fulls á Rússafiskinn

Niðurstaðan er þar með sú að útlit á markaði Hólmaskers/VSV vestan hafs er giska gott. Þar skiptir aukin umsvif í efnahaglífinu auðvitað meginmáli og að samfélagið stefnir í átt að fyrri skorðum og stöðugleika – nema eitthvað óvænt komi upp á.

Fleira kemur til sem eykur bjartsýni varðandi fisksölu í Bandaríkjunum og þar koma við sögu afleiðingar innrásar og styrjaldarreksturs Pútíns og einræðisstjórnar hans í Úkraínu.

Albert Erluson skýrir hvernig þræðir liggja:

„Bandarísk stjórnvöld bönnuðu á sínum tíma innflutning á fiski frá Rússlandi en bannið náði ekki til viðskipta gegnum þriðja aðila. Til Bandaríkjanna hefur því borist fiskur sem Rússar veiða, frysta, flytja til Kína til vinnslu og frystingar á ný. Síðan er varan seld til Bandaríkjanna og flutt þangað sjóleiðis frá Kína.

Hert var á banninu á dögunum með því að það tæki líka til sölu gegnum þriðja aðila. Kveðið var á um að Rússafiskur sem færi í skip í Kína fyrir 20. febrúar 2024 kæmist á markað í Bandaríkjunum. Eitthvað er því eftir af Rússafiski í þessum pípum en þegar þær tæmast blasir við algjört viðskiptabann á þessum tvífrysta fiski sem flætt hefur til Bandaríkjanna í stórum stíl á verði sem er langt undir því sem við getum boðið fyrir okkar fisk, vöru sem auðvitað ber af Rússafiski í gæðum.

Norðmenn veiða og senda áfram fisk til Kína þar sem hann er unninn, frystur og seldur til Bandaríkjanna. Þau viðskipti halda áfram en það munar um minna en allan Rússafiskinn á þessum markaði.

Ómögulegt er að ímynda sér annað en að áhrif þessa verði þau að áhugi fyrir fiskinum okkar vaxi og spurn eftir honum aukist.“

Mynd 1 (sú efsta): JR Pierce til vinstri annast sölu á fiski frá Íslandi í Bandaríkjunum á vegum High Liner FoodAlbert Erluson, framkvæmdastjóri Hólmaskers, til hægri.

Mynd 2:  Yohei Kitayama, sölustjóri VSV í Japan; Gunnar Páll Hálfdánsson, sölu- og verkefnastjóri Leo SeafoodBjarni Rúnar Einarsson, framkvæmdastjóri Leo SeafoodSverrir Örn Sverrisson,nýr framkvæmdastjóri Marhólma; Björn Matthíasson, rekstrarstjóri VSV Seafood Iceland og Albert Erluson, framkvæmdastjóri Hólmaskers.

 

Mynd 3: Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar; Björn Matthíasson, rekstrarstjóri VSV Seafood Iceland, og Gunnar Páll Hálfdánsson, sölu- og verkefnastjóri Leo Seafood.

Myndir 4 og 5:  Horft yfir sýningarsvæði Boston Seafood.