Óbyggðanefnd svarar beiðni Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra um endurskoðun ákvörðunar nefndarinnar um tilhögun málsmeðferðar á svæði 12, eyjar og sker í bréfi þann 22. febrúar. Þar er áréttað af framgangur málsins er alfarið í höndum ráðherra. Vísað er til bréfs fjármála- og efnahagsráðherra til óbyggðanefndar 16. febrúar 2024 þar sem þess er farið á leit að óbyggðanefnd falli frá núverandi málsmeðferð á svæði 12, eyjum og skerjum og hefji nýja málsmeðferð á sama svæði með viðbótarþrepi skv. 10. gr. a. þjóðlendulaga.

Í bréfinu segir að þar sem umrædd heimild hafi ekki verið nýtt hafi íslenska ríkinu „í raun verið sú eina leið fær að beita útilokunaraðferð við kröfugerð vegna umfangs svæðisins og takmarkaðra upplýsinga um hugsanleg eignarréttindi“. Þá segir að hefði heimildin verið nýtt hefði að mati fjármála- og efnahagsráðherra hugsanlega verið hægt að fækka ágreiningssvæðum til muna.

Á öðrum stað í bréfinu segir: „Óbyggðanefnd bendir á að skv. 1. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga hefur fjármála- og efnahagsráðherra forræði á kröfugerð ríkisins í þjóðlendumálum og samkvæmt  þjóðlendulögum fer fjármála- og efnahagsráðherra með fyrirsvar fyrir hönd ríkisins og stofnana á vegum þess við úrlausn um hvort land teljist til eignarlands eða þjóðlendu. Telji fjármála- og efnahagsráðherra að tilefni sé til að endurskoða kröfur ríkisins um þjóðlendur á svæði 12, eftir atvikum að framkomnum gagnkröfum eða undangenginni frekari gagnaöflun, er á forræði ráðherra að taka þær til endurskoðunar á hvaða stigi máls sem er. Þá er einnig bent á að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. þjóðlendulaga skal óbyggðanefhd leita sátta með aðilum, en slíkar sáttaumleitanir fara fram eftir að heildarkröfur eru komnar fram.

Ef fallið yrði frá þeirri málsmeðferð á svæði 12 sem hófst með bréfi óbyggðanefndar til fjármála- og efnahagsráðherra dags. 19. apríl 2023 og hafin ný málsmeðferð á sama svæði með viðbótarþrepi skv. 10. gr. a. þjóðlendulaga myndi slíkt viðbótarþrep að öllum líkindum einkum skila sambærilegum upplýsingum og sá kröfulýsingarfrestur sem nú hefur verið veittur.“ Samkvæt þessu er framgangur málsins í höndum ráðherra og hún ein getur ákveðið að það verði fellt niður.

Undir þetta skrifar Sigmar Aron Ómarsson, framkvæmdastjóri nefndarinnar.

Mynd – Smáeyjar eru á hættusvæði.