Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2024 fór fram á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 21. mars. Í aðdraganda aðalfundar fór fram rafræn kosning meðal félagsmanna um 3 meðstjórnendur í stjórn SAF til næstu tveggja ára ásamt því að kjörinn var formaður.

Á fundinum var Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Viator ehf., kjörinn formaður SAF til næstu tveggja ára. Tekur Pétur við formennskunni af Bjarnheiði Hallsdóttur, framkvæmdastjóra Kötlu-DM, sem verið hefur formaður SAF frá árinu 2018. Á fundinum voru Bjarnheiði færðar bestu þakkir fyrir vel unnin störf á vettvangi SAF og íslenskrar ferðaþjónustu undanfarin sex ár með standandi lófataki.

Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnandi og eigandi Lava Show, Erna Dís Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Íslandshótelum og Björn Ragnarsson, forstjóri Icelandia hlutu kjör í stjórn SAF til næstu tveggja ára.

Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir, eigandi Midgard og Sævar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Mjóeyri við Eskifjörð hlutu færri atkvæði og eru því varamenn í stjórn SAF starfsárið 2024 – 2025.

Ásamt þeim sitja í stjórninni þau Rannveig Grétarsdóttir, eigandi Eldingar og Akureyri Whale Watching, Helgi Már Björgvinsson, yfirmaður alþjóðasamskipta hjá Icelandair og Nadine Guðrún Yaghi, forstöðumaður samskipta og þjónustu hjá Play.

Fréttatilkynning.

Mynd: Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Viator ehf. var kjörinn formaður Samtaka ferðaþjónustunnar til næstu tveggja ára.