Þekking og reynsla í þágu þjóðarinnar – Málsvari þess íslenska drifkrafts, sem gerir okkur að sterkri þjóð

Helga Þórisdóttir, sem hefur gegnt starfi forstjóra Persónuverndar undanfarin rúm átta ár, tilkynnti á blaðamannafundi fyrr í dag að hún ætlar að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Blaðamannafundurinn var haldinn á heimili Helgu í Reykjavík, en hún sagðist vilja bjóða heim til að þjóðin gæti kynnst sér betur.

„Mín áhersluatriði sem forseti eru fyrst og fremst að vera þjónn fólksins í landinu – og vera fremst í flokki við að styðja við alla landsmenn. Jafnframt að vera málsvari þess íslenska drifkrafts, sem gerir okkur að þeirri sterku þjóð sem við erum, á eldfjallaeyjunni okkar nyrst í Atlantshafi,“ sagði Helga.

Helga leggur áherslu á að styðja við fræðasamfélagið, menninguna og atvinnulífið, sem og hina gróskumiklu nýsköpun og sköpunarkraft íslenskrar þjóðar. Hún vill jafnframt vera rödd þjóðarinnar á heimsvísu, á tímum breyttrar heimsmyndar, og umfram allt, sýna þekkingu, yfirvegun og áreiðanleika, fyrir íslenska þjóð.

„Sem forstjóri Persónuverndar í rúm átta ár, þá hef ég stýrt mikilvægri ríkisstofnun, stundum í ólgusjó, en alltaf af þeirri fagmennsku, festu og heiðarleika, sem verkefnið hefur kallað á. Á þeirri vegferð hef ég sýnt fram á að ég er óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir. Ég er alin upp með virðingu fyrir grunngildum íslenskrar þjóðar. Ég þekki menningu okkar, tungu og sögu – auk þess að hafa sérþekkingu á mikilvægi þess að standa vörð um réttindi einstaklinga á tækniöld,“ sagði Helga einnig.

Helga segir að reynsla hennar og þekking geti svo sannarlega nýst íslensku þjóðinni. Hún hafi unnið að almannahagsmunum alla sína starfsævi. Í þeim störfum hefur það reynst henni vel að þykja vænt um annað fólk og styðja það, og búa þannig til betra samfélag.

Hún brennur fyrir hagsmunum íslenskrar þjóðar og býður nú fram reynslu sína, þekkingu og einlægni til að gegna hinu mikilvæga embætti forseta Íslands.

Fréttatilkynning.

Mynd Íris Dögg Einarsdóttir.

 

Framboðsræða Helgu

Kæru landsmenn, kæru vinir!

Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á heimili mitt, og fjölskyldu minnar.

Ég var alin upp með þeim orðum að ég gæti gert allt sem ég vildi gera í lífinu.

Uppeldi mitt einkenndist af hlýju, aga og stuðningi  – og foreldrar mínir, Þórir Helgason lyflæknir á Landspítalanum, og Auður Jónsdóttir, læknaritari, höfðu bæði mjög sterk og mótandi áhrif á mig.

Þau lögðu líka mikla áherslu á að kynna mér heiminn og ung var ég send í tvígang í sveit, í Hörgárdal í Eyjafjarðarsýslu og einnig til útlanda til að læra erlend tungumál.

Betra veganesti hefði ég ekki getað fengið.

Í ár fagna ég 29 ára starfsafmæli sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands.

Starfsferill minn hefur einkennst af þjónustu við almannahagsmuni – hann einkennist af því að hlúa að hagsmunum Íslendinga.

Og núna í starfi mínu sem forstjóri Persónuverndar hef ég sett á oddinn réttindi einstaklinga á tímum tæknibyltingar.

Ég hef starfað hjá embætti ríkissaksóknara, á nefndasviði Alþingis, hjá EFTA í Brussel, hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Lyfjastofnun og nú síðast hef ég sinnt því vandasama hlutverki að starfa sem forstjóri Persónuverndar á mjög krefjandi tímum. Síðastliðið vor var ég einnig beðin um að taka að mér formennsku í stjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnana.

Til þess að vinna að almannahagsmunum, þá hefur það reynst mér vel að þykja vænt um annað fólk, vilja styðja það – og búa til betra samfélag. Þar er ég.

Á starfsferli mínum hef ég aflað mér umfangsmikillar reynslu og þekkingar, m.a. af íslenskri stjórnsýslu og alþjóðasamskiptum.

Ég hef haldið alþjóðlegar ráðstefnur á Íslandi og hef flutt tugi erinda, heima og að heiman. Ég á sæti í hinu Evrópska persónuverndarráði og hef dagsdaglega þurft að sinna margvíslegum erlendum samskiptum. Ég hef í gegnum árin dvalið í Belgíu og Frakklandi og sumarlangt í Danmörku og Skotlandi, sem unglingur.

Sem forstjóri Persónuverndar í rúm átta ár, þá hef ég stýrt mikilvægri ríkisstofnun, stundum í ólgusjó, en alltaf af þeirri fagmennsku, festu og heiðarleika, sem verkefnið hefur kallað á. Á þeirri vegferð hef ég sýnt fram á að ég er óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir.

Ég er alin upp með virðingu fyrir grunngildum íslenskrar þjóðar. Ég þekki menningu okkar, tungu og sögu – auk þess að hafa sérþekkingu á mikilvægi þess að standa vörð um réttindi einstaklinga á tækniöld.

 

Með alla mína dýrmætu reynslu og þekkingu, þá býð ég mig því fram – hér og nú – til embættis forseta Íslands

Embætti forseta Íslands er að mínu mati eitt virðingarmesta embætti landsins.

Í embættinu þarf að vera einstaklingur sem ber virðingu fyrir lýðræðinu og fyrir grunngildum íslenskrar þjóðar, eins og þau eru lögfest í okkar stjórnarskrá.

Þar þarf að vera einstaklingur sem tryggir að virðing sé borin fyrir öllum í lýðræðissamfélagi einstaklingur sem tryggir að ríkið, á hverjum tíma, grafi ekki undan okkar helstu gildum.

Einstaklingur sem hefur dug og þor til að standa í fæturna, fyrir íslenska þjóð, ef á þarf að halda.

Einstaklingur sem þekkir nauðsyn þess að tæknibreytingar vinni með okkur.

Einstaklingur sem hlúir að börnum og eldri borgurum – og öllum þeim hagsmunum öðrum sem embættið getur komið að, til hagsbóta fyrir landsmenn alla.

Einstaklingur sem Íslendingar geta verið stoltir af – heima og heiman.

Einstaklingur sem yrði ávallt kjölfestan í íslensku samfélagi – öryggisventill íslenskrar þjóðar!

Þessum hagsmunum öllum brenn ég fyrir – og finn sterkt í mínu hjarta að ég get sinnt, svo sómi sé að fyrir íslenska þjóð.

 

Mín áhersluatriði sem forseti eru fyrst og fremst að vera þjónn fólksins í landinu – og vera fremst í flokki við að styðja við alla landsmenn.

Jafnframt að vera málsvari þess íslenska drifkrafts, sem gerir okkur að þeirri sterku þjóð sem við erum, á eldfjallaeyjunni okkar nyrst í Atlantshafi.

Ég vil styðja við fræðasamfélagið, menninguna og atvinnulífið.

Ég vil styðja við okkar gróskumiklu nýsköpun og sköpunarkraft íslenskrar þjóðar.

Ég vil jafnframt vera rödd þjóðarinnar á heimsvísu, á tímum breyttrar heimsmyndar – og umfram allt sýna þekkingu, yfirvegun og áreiðanleika, fyrir íslenska þjóð.

Ég brenn fyrir hagsmunum íslenskrar þjóðar.

Þess vegna býð ég fram reynslu mína, þekkingu og einlægni til að gegna þessu mikilvæga embætti!

Áfram Ísland!