Í viðtali í síðasta blaði Eyjafrétta við írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra segist hún kannast við heitar umræður um samgöngumál í Eyjum og er alls ekki ósátt við að fólk tjái hug sinn. „Það er samt mikilvægt að beina því til þeirra sem bera ábyrgðina og aðstoða þannig okkur kjörna fulltrúa við að halda þeim við efnið. Ábyrgðin liggur hjá alþingismönnum og  ríkisstjórn sem ákváðu á sýnum tíma að Landeyjahöfn yrði okkar samgönguleið allt árið. Það er þeirra að tryggja að höfnin virki eins og lofað var.“

Það eru háar upphæðir sem fara í Landeyjahöfn á hverju ári, dýpkun langt umfram áætlanir.  Höfnin er ekki tilbúin og við því þarf að bregðast.  „Nú ætlar Vegagerðin að fá til sín danska aðila til að leita lausna. Það hefur ekkert verið gert til að bæta höfnina í 13 ár. En blessunarlega fengum við skip sem hentar höfninni mun betur en dugar ekki til þess að frátafir verið eins og lofað var,“ segir Íris og nefnir næst stóra drauminn.

„Það jákvæða er að mjög öflugur hópur er að störfum varðandi göng. Kafar ofan í allt, bæði fjárhagslega og faglega þáttinn. Rannsókn á jarðlögum og hvernig hægt er að fjármagna framkvæmdina. Það er til mikils að vinna því á núvirði hefur verið varið tugum milljarða í samgöngur við Vestmannaeyjar frá árinu 2010.  Ef þú tekur skipin, höfnina, dýpkunina og hlutann sem við Eyjamenn og gestir borgum í farm- og fargjöldum eru þetta líklega hálf göng og ekki tryggar heilsárs samgöngur. Ég trúi því að göng verði alltaf hagkvæm ef þau eru framkvæmanleg.  Hinu opinbera ber að halda uppi samgöngum hingað og á meðan ástandið er svona er ólíðandi hvernig þeir hafa farið með flugið,“ segir Íris.

Mynd – Íris segir að Sigurður Ingi innviðaráðherra hafi ásamt Guðrúnu Hafsteindóttur dómsmálaráðherra, staðið vaktina fyrir Vestmannaeyjar en kallar eftir röddum þingmanna.