Bæjarstjóri fór yfir stöðu mála á dýpkun við Landeyjahöfn og samskipti við Vegagerðina á fundi bæjarstjórnar á föstudaginn. Bæjarráð hafði áður farið fram á við Vegagerðina að hún grípi til aðgerða gagnvart dýpkunaraðila, Björgun vegna vanefnda á samningi.

„Dýpið á rifinu er ekki nægjanlegt og dýpkun ekki gengið sem skyldi. Dýpkunaraðili nýtti ekki dýpkunarglugga í kringum páska eins og honum ber skylda til samkvæmt samningi. Þar af leiðandi er enn ekki fullnægjandi dýpi til siglinga samkvæmt fullri áætlun í Landeyjahöfn nema við bestu aðstæður,“ segir í fundagerð.

Var henni fylgt eftir með sameiginlegri bókun bæjarstjórnar sem allir bæjarfulltrúar skrifuðu undir. „Bæjarstjórn tekur undir með bæjarráði og skorar á Vegagerðina að grípa til aðgerða gagnvart dýpkunaraðila í Landeyjahöfn vegna vanefnda á samningi.

Ganga verður þannig frá dýpkunarmálum í Landeyjahöfn að íbúum Vestmannaeyja verði ekki boðið upp á annan vetur sambærilegan þessum. Bæjarstjórn brýnir nýjan innviðaráðherra og þingmenn kjördæmisins að gæta hagsmuna Vestmannaeyinga og tryggja það að dýpkunarmálum verði komið í fullnægjandi farveg.“

Landeyjahöfn: Ganga verður þannig frá dýpkunarmálum í Landeyjahöfn að íbúum Vestmannaeyja verði ekki boðið upp á annan vetur sambærilegan þessum.