Jói Bjarna talaði hátt. Hann var hávær, sló um sig og hló mikið og brosti, pírði augun í dökkri umgjörðinni. Hann var aðlaðandi maður, brosmildur, svarthærður og dökkur. Við urðum nágrannar sjö ára gamlir, Jói bjó á Heimagötu 30, ég á Grænuhlíð 18, bekkjafélagar og vinir. Við erum hluti af 56 módelinu sem er samanhnýttur vináttu- og kærleiksvafningur okkar fermingasystkina.

Gosið kramdi ekki bara hús í klessu heldur tætti í sundur æskufélaga og vini svo árum og áratugum skipti. Á þeim tíma lét Jói drauma sína um farmennsku rætast og hann sást ekki lengi. Hann var horfinn á sjóinn, þurfti ekki lengur að standa á trékassa við stýrið, eins og Einar skiptó setti undir hann svo peyinn sæi á kompásinn og út um stýrishúsgluggann á Lóðsinum.

Jói Bjarna hélt um stýrið um heimsins höf, var á varðskipum og Herjólfi og sigldi stoltur með sitt fólk milli lands og Eyja. Tók á móti okkur við skipshlið og bauð alla velkomna um borð með sitt smitandi og innilega fas, bjartasta stýrimannsbrosið. Það sló birtu á Kleifarnar og skugga á sandinn í Löngu þegar hann stóð á Básaskeri. En lífið var eins og sjórinn, það var ekki alltaf blíða. Hann skall fyrirvaralaust á með suðaustan skít en það var aldrei svo slæmt að hann dytti ekki í dúnalögn, eða bullandi lens með nýju lífi. Þannig steig hann ölduna í lífsins sjó meðan stætt var. Við ræddum lífið á Landspítalanum, ég talaði, hann hlustaði, röddin sterka var brostin og ég þakkaði honum og Guði fyrir vináttu okkar. Hún var gengheil til síðustu stundar, reist á væntumþykju og virðingu.

Þegar við vorum peyjar var Jói mikið hjá Freymóði bæjarfógeta á Tindarstól. Fógetinn talaði mjög hátt og þá gerði Jói það líka. Þegar ég var með að hitta yfirvaldið þá töluðu þeir saman eins og þeir væru í vélarrúmi á fiskibát, mjög hátt en það var engin vél í gangi í íbúð bæjarfógetans. Þeir veittu hvor öðrum gleði og þá láta menn í sér heyra.

Jói var fæddur gamall, talaði mál fullorðinna og auðgaði mannlífið. Hann talaði sífellt um báta og skip. Bað mig oft að teikna myndir af bátum og skipum fyrir sig þegar við vorum í Barnaskólanum, oftast vildi hann nýja mynd af Lóðsinum. Þegar við peyjarnir vorum að safna leikarmyndum safnaði Jói báta og skipamyndum.

Hann var sex ára þegar hann, fór að klippa báta- og skipamyndir úr dagblöðum, sem hann safnaði og átti til dauðadags. Hann átti allar bátamyndir frá Westminster, útgefnar 1928 til 1935. Líka Sólarfilmusafnið,192 tölusettar myndir. Hann var alæta á fréttir og fréttatengda þætti. Sat yfir slíku efni tímunum saman. Hafði skoðanir og þær heyrðust vel þegar hann rökfastur pírði augun og brosti af vitleysunni sem hann heyrði.

Þá var oft látið vaða á súðum, en heilsan bilaði og lífsskipið var bundið við bryggju. Jói Bjarna bað um kastlínuna, hann var komin í Friðarhöfn og vildi leggjast utan á Lóðsinn. Þar stóð við stýrið lítill peyi á trékassa og bauð hann velkominn Heim. Þeir sigldu þöndum seglum með himinskautum þar til slökknaði á siglingasljósunum og Jói Bjarna kastaði akkerinu í síðasta sinn.

Ásmundur Friðriksson 56, vinur.