Það blæs ekki byrlega fyrir ÍBV þessa dagana, karlarnir í handboltanum hafa tapað tveimur leikjum í fjögurra liða úrslitunum gegn FH og konurnar töpuðu stórt í öðrum leiknum gegn Val  í  fjögurra liða úrslitunum í gær. Það var högg þegar ÍBV féll úr leik í bikarnum gegn Grindavík á sumardaginn fyrsta. Leikurinn frábær skemmtun en heppnin var með Grindavík sem kannski þurfti meira á því að halda í stóra samhenginu. Burt séð frá úrslitunum gefur leikurinn vonir um skemmtilegt knattspyrnusumar í boði Hemma og hans manna.

Það var áfall þegar meistaraflokkar karla og kvenna ÍBV í knattspyrnu féllu úr Bestu deildinni í fyrra en lífið heldur áfram. Hefur gerst áður og ÍBV risið upp að nýju og náð frábærum árangri. Í ljósi þeirrar sögu ber að skoða stöðuna í dag. Í meistaraflokki kvenna er teflt fram mjög ungu liði sem á eftir að eflast og styrkjast með hverju leik í sumar. Þeim stýrir reynsluboltinn Jón Óli sem kann að búa til öflugar knattspyrnukonur.

Það sama á við um karlana sem þó eru með reynslubolta sem koma til með að draga vagninn þegar á reynir í sumar. Það sem skiptir miklu er, að bæði liðin eru að stórum hluta byggð upp á Eyjafólki. Fólki sem fær tækifæri til að dafna sem öflugt knattspyrnufólk og gæti orðið kjarninn sem reisir Vestmannaeyjar upp úr núverandi lægð.

Ein af stoðum samfélagsins

Þegar litið er yfir tímabilið í handboltanum verður að viðurkennast að það stenst ekki samanburð við árið í fyrra þegar konurnar urðu bikarmeistarar og deildarmeistarar og karlarnir Íslandsmeistarar. ÍBV vann þar með þrjá titla af þeim sex sem voru í boði. Í vetur komust konurnar í fjögurra liða úrslit í bikarnum og eru í átta liða úrslitum eins og karlarnir. Staðan er ekki vænleg en bæði lið eru að keppa við liðin, FH-inga og Valskonur sem munu örugglega komast alla leið í úrslit. Þrátt fyrir allt, árangur sem mörg félög myndu gleðjast yfir.

Metnaður er nauðsynlegur í íþróttum. Gaman þegar vel gengur en verðum líka að kunna að takast á við mótbyr. Vega og meta stöðuna og skoða hvað má betur fara. Gæta orðavals í hita leiksins. Fari menn yfir strikið er auðveldasta leiðin að biðjast afsökunar með loforði um bót og betrun.

Þessar hugleiðingar eru skrifaðar meira af tilfinningu en visku en líka af vissu um  stöðu ÍBV-íþróttafélags fyrir Vestmannaeyjar. ÍBV er þekktasta og sterkasta vörumerki Vestmannaeyja og ein af stoðum samfélagsins. Höfum þetta í huga, alltaf. Átök eru hluti af daglegu lífi og þar er íþróttahreyfingin ekki undanskilin. Oft kraftmikið og hugumstórt fólk sem fer með ferðina. Það gerist í öllum íþróttafélögum en allt of oft ratar ágreiningur innan ÍBV í fjölmiðla.

Ótrúlegur árangur

ÍBV – íþróttafélag var stofnað í lok árs 1996 og hefur náð ótrúlegum árangri. Hafa önnur félög skilað fleiri titlum í meistaraflokki í handbolta karla og kvenna á þessum tæplega 30 árum? Hefur annað félag skilað fleiri titlum í yngri flokkum í handbolta? Hefur annað félag skilað fleiri leikmönnum sem leika með toppliðum í handboltanum í Evrópu?

Afrekaskráin ekki jafn stórfengleg í fótboltanum en bikarmeistaratitlar ÍBV karla og kvenna 2017 segja þó sína sögu. Í samantekt um 20 ára sögu félagsins eru titlarnir, í öllum flokkum orðnir 87 og síðan hafa bæst við Íslands- og bikarmeistaratitlar karla og kvenna í handbolta og í yngri flokkum handbolta og fótbolta þannig að í allt eru titlar ÍBV orðnir um 100 á 28 árum. Státar eitthvert félag á Íslandi af betri árangri?

Verkefni þeirra sem starfa, styðja og leika fyrir hönd ÍBV er að  halda uppi heiðri félagsins. Gera það eftirsóknarvert að vera í forystu félagsins. Ekki síður að  við fáum til okkar leikmenn í fremstu röð. Fólk sem hefur sýnt að það er tilbúið að leggja allt í sölurnar til að ÍBV nái árangri. Við eigum líka að fagna með leikmönnum sem fá tækifæri erlendis og nú bætast tveir í þann glæsilega hóp.

ÍBV á að skipa frábæru starfsfólki, sjálfboðaliðum sem svara hverju kalli, leikmönnum í fremstu röð sem hafa glatt okkur svo oft og síðast en ekki síst einstöku stuðningsfólki. Og rúsínan í pysluendanum er úttekt RÚV á knattpyruvöllum á Íslandi þar sem Hásteinsvöllur stóð upp úr. Frábærar umsagnir og þegar gerfigreindin var spurð álits var svarið: Lygi.

Eyjamenn, stöndum að baki ÍBV – Við þurfum á félaginu að  halda og það á okkur. Við erum með vindinn í fangið en skýið dökka sem sumir tala um er örugglega miklu dekkra yfir öðrum félögum.

ÓG.

Myndir: Sigfús Gunnar – Úr bikarleik karla og leikjum karla og kvenna í undanúrslitum handboltans.

 

Gríðarlega stór hluti af mannlífinu í Eyjum

Í 20 ára sögu ÍBV íþróttafélags er margs að minnast. Í annál félagsins má sjá að félagið er í sjálfu sér stórveldi á íþróttasviðinu, ekki síst í ljósi þess að íbúar Vestmannaeyja eru aðeins rúmlega 4600 talsins. Í meistaraflokkunum hefur félagið landað 33 titlum, Íslands-, bikar-, Lengju-, Fótbolta.net-, Futsal- og meistarar meistaranna.

Þar af 7 Íslandsmeistaratitlum í efstu deildum handbolta og fótbolta. Í yngri flokkunum hefur félagið eignast 24 Íslandsmeistaratitla í hinum ýmsu keppnum í handbolta og fótbolta og 6 bikarmeistaratitla auk annarra titla í hinum ýmsu mótum.

Samtals hefur ÍBV íþróttafélag hlotið 87 meistaratitla af ýmsum toga. Þá hefur félagið eignast landsliðsfólk í öllum landsliðum Íslands í handbolta og fótbolta, frá yngstu flokkunum og uppúr, – fleiri en tölu verður á komið og verið Vestmannaeyjum og félagi sínum til mikils sóma.

Fimm sinnum hefur karlalið ÍBV íþróttafélags tekið þátt í Evrópukeppnum í knattspyrnu og tvö skipti komist áfram í 2. umferð. Karlalið ÍBV í handbolta hefur fjórum sinnum tekið þátt í Evópukeppnum og konurnar einnig fjórum sinnum. Árið 2004 komst kvennaliðið alla leið í undanúrslit.

En titlar eru ekki allt, félagið hefur rekið gríðarlega umfangsmikið barna- og unglingastarf í handbolta og fótbolta, þar sem allir eru velkomnir. Tvö af stærstu knattspyrnumótum hvers árs á Íslandi eru haldin í Vestmannaeyjum á vegum félagsins, Orkumótið fyrir drengi og TM mótið fyrir stúlkur. Þá er á hverju hausti haldið í Eyjum eitt stærsta handboltamót yngri flokkanna, Eyjablikksmótið.

Um hver áramót er gamla árið kvatt með brennu og flugeldasýningu í Hásteinsgryfjunni og glæsilegasta þrettándahátíð landsins er í Eyjum á vegum ÍBV. Ekki má svo gleyma stærstu útihátíð landsins, Þjóðhátíðinni, sem á engan sinn líka. ÍBV íþróttafélag er því gríðarlega stór hluti af mannlífinu í Eyjum og dregur mörg þúsund manns til Eyja á hina ýmsu viðburði og bætir efnahag Vestmannaeyja um stórar fjárhæðir. Sennilega er ÍBV það „vörumerki“ í Eyjum, sem flestir landsmenn þekkja.

Saga ÍBV – íþróttafélags í 20 ár – Samantekt Gísli Valtýsson