„Það eru 15 verk á sýningunni. Allar landslagmyndir, annars vegar olíuverk á striga og hinsvegar blýantsteikningar. Myndirnar hef ég unnið sl. tæpt ár. Þær eru margar af þekktum kennileitum eins og Skjaldbreiður og Lómagnúpur en einnig eru á sýningunni verk sem eru byggð á tilfinningu og minningu um staði og stundir,“ segir Eyjamaðurinn Bjarni Ólafur Magnússon um sýningu sína í Gallerí Fold sem hann opnaði á laugardaginn.

Er þetta fyrsta einkasýning Bjarna Ólafs í Gallerí Fold.  „Eins eru tvær teikninganna með vísan eða tengingu við atburði eða sagnir frá því á 18. og 19. öld og voru að virka sterkt á barnshugann.  Annars er ég fyrst og fremst að vinna með birtu og tóna sem sem ég tengi við ákveðin birtuskilyrði, eins og t.a.m í sumarnótt í húmi og mistri. Speglunin er oft ríkjandi þáttur og nýti ég mér þar að tvískipta myndum með tveimur strigaflekum,“ sagði Bjarni Ólafur sem er ánægður með viðtökurnar.

Bjarni Ólafur er fæddur og alinn upp í Vestmannaeyjum. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1982 og stundaði nám í grunndeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1982 til 1983.

Árið 1988 hélt hann til Bandaríkjanna þar sem hann lagði stund á myndlistarnám í Kansas City Art Institute árin 1988 til 1990. Um vorið 1990 var hann gestanemandi við málaradeild San Fransico Art Institute. Árin 1991 til 1992 stundaði Bjarni nám við Goldsmiths/University of London.

Myndir: Tvær myndir af sýningunni og ein 120 x 100, olía á striga. Suðureyjarnar séðar frá Stórhöfða.