Hefðbundinni kennslu við Grunnskóla Vestmannaeyja lauk síðast miðvikudag og við tóku hinir árlegu fjölgreindarleikar.
“Leikarnir byggja á hugmyndum/kenningum Howards Gardners um fjölgreindirnar þar sem gengið er út frá því að allir séu góðir í einhverju og að allir eigi að fá tækifæri til að fást við það sem þeir eru sterkir í,” sagði Óskar Jósuason, aðstoðarskólarstjóri í samtali við Eyjafréttir í gær.
“Með fjölgreindaleikum er verið að búa til skemmtilegan viðburð þar sem nemendur og starfsfólk eiga góða daga við leik og skemmtun. Starfsmenn skólans fá að kynnast nemendum skólans á annan hátt og einnig gefst nemendum tækifæri á að kynnast hvert öðru frá 1. – 7. bekk.” Óskar sagði þrautirnar fjölbreyttar þar sem allir fá að spreyta sig á mismunandi verkefnum þar sem sterku hliðar hvers og eins fá að njóta sín.
“Hver hópur er samansettur af nemendum úr 1. – 7. bekk þar sem elstu nemendur fá það hlutverk að vera fyrirliðar. Fyrirliðar fylgja sínum hóp og bera ábyrgð á honum allan daginn sem leikarnir eru. Þeir verða að hjálpa liðinu sínu í nestistíma og matartíma og einnig að passa upp á sína liðsmenn á milli stöðva. Hver hópur tekur þátt í 32 mismunandi þrautum og safna þannig stigum fyrir sitt lið.”
Fjölgreindarleikunum lauk svo í gær með verðlaunaafhendingarhátíð á Stakkagerðistúni í gær. En krakkarnir notuðu einnig tækifærið og rifjuðu upp danssporin frá því á danssýningu GRV á dögunum.
Óskar vildi nota tækifærið og þakka Pizza 67, JOY og 66°norður/Volare fyrir verðlaunin og Heildverslun KK fyrir ísinn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst