Fjárbændur í Eyjum eru allir frístundabændur. Margir þeirra hafa fé á beit í úteyjunum allan ársins hring. Á sunnudag var réttað þremur eyjanna, Bjarnarey, Álsey og Suðurey. Áður hafði verið réttað í Elliðaey og þaðan flutt 240 fjár til lands, bæði lömb og fullorðið fé. Þá er búið að rétta í Ystakletti en réttir á heimalandinu og i Heimakletti verða næstu daga,“ segir í Morgunblaðinu í september 1991 með myndum Sigurgeirs Jónassonar.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan en fjárbændur eru enn í Eyjum og í síðustu viku hituðu þeir upp fyrir haustið með mikilli sviðaveislu í félagsheimili framsóknarmanna við Kirkjuveg. Mikið um dýrðir og sviðin rétt soðin og söltuð en svona lýsir Pétur Steingríms veislunni á FB-síðu sinni:
Það var glatt á hjalla í Framsóknarheimilinu við Kirkjuveg í kvöld þegar bændur á Breiðabakka, Bakkabræður buðu nokkrum félögum sínum í fjárræktinni hér í Eyjum í sviðaveislu.
Mikið borðað af sviðum, rófum og kartöflum, smjattað og slufrað og alls konar góðir drykkir í drukknir og svo spjallað þess á milli og eins og einhver sagði: „Það er sko ekki töluð vitleysan hér frekar en fyrri daginn.“
Undirritaður uppgötvaði það fyrst í kvöld hvað það skiptir miklu máli að hausarnir séu rétt saltaðir og rétt soðnir, því þetta voru þau bestu svið sem hann hefur smakkað hingað til og fleiri höfðu það að orði líka.
Nú þarf maður aftur að fara að nudda sér utan í bóndasoninn úr Mýrdalnum, hann Sigga Sím, Sigurður Þór Símonarson en hann er mikill kokkur og greinilega með allt á hreinu um rétta magnið af salti á pr. haus og suðutíma. Þegar spurt er um þetta þá fær maður oftast jafn mörg og misjöfn svörin eins og fólkið er margt sem spurt er. Í kvöld uppgötvaðist lang, lang besta uppskriftin til þessa.
Enn og aftur kæru Bakkabræður hjartans þakkir fyrir yndis mat og að ná fram í sviðsljósið öllum þessum körlum sem skópu þennan frábæra félagsskap í kvöld. Vonandi er þetta komið til að vera,“ segir Pétur.
Myndir Óskar Pétur.
Bakkabændur, Gústi og Jónatan.
Haukur á Reykjum lét sig ekki vanta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst