Páskafundur Aglow verður miðvikudagskvöldið 5. apríl kl. 19.30 í Safnaðarheimili Landakirkju. Boðið verður upp á veitingar og fundurinn sjálfur byrjar kl. 20.00. Á fundinum munum við skoða innihald páskanna.
Hvað þýðir það fyrir okkur að Jesús dó á krossi og reis upp á þriðja degi. Við munum ræða um merkingu upprisunnar og boðið verður upp á að koma með vitnisburð, athugasemdir, vangaveltur og spurningar. Páskar, upprisuhátíðin, er elst og mest allra kristinna hátíða. Upprisan er kjarni kristinnar trúar. Páskar er hátíð gleði og fagnaðar.
Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn! Hann hefur afmáð dauðann og leitt í ljós líf og ódauðleika……En það, að þessar konur, fyrstar allra – lifðu umbreytinguna frá ósigri til huggunar og gleði, að lærisveinarnir opnuðu læstar dyrnar sem þeir höfðu byrgt sig bak við, og sögðu öðrum fréttina, létu hana berast frá manni til manns, að hún hefur borist yfir höf og fjöll og allt til okkar nú með umbyltandi afli sínu, það er kraftaverkið. ,,Ég er með yður alla daga.“ Þegar við reynum það, þá verða páskar sannlega í dag í okkur. (Barbara Cratzius)
Við hlökkum til að hitta ykkur sem flestar á miðvikudagskvöldið og eru allar konur hjartanlega velkomnar. Stjórn Aglow óskar ykkur öllum gleðilegrar páskahátíðar.
Síðasti Aglow fundur vetrarins verður 3. maí og ætlum við að fara í bænagöngu og fara yfir efni frá Taívan frá Alþjóðlegum bænadegi kvenna. Nánar auglýst síðar.
Gleðilega páska !
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst