Heildarafli íslenskra skipa í október var rúm 98 þúsund tonn en það er átta þúsund tonnum meiri afli en var í október í fyrra samkvæmt tölum Fiskistofu.
Fram kemur á vef stofnunarinnar að aukinn afli skýrist af tæplega 15 þúsund tonna aukningu á síldarafla milli ára. Á móti kemur minni afli í þorski og kolmunna þannig að verðmæti aflans miðað við fast verð jókst ekki milli ára í sama mæli og aflinn.
Heildarafli íslenskra skipa á árinu var orðinn rúm 1200 þúsund tonn í lok október og er það tæplega 68 þúsund tonnum meiri afli en á sama tíma á síðasta ári. Aukningin milli ára stafar af meiri loðnu- og markrílafla í ár eftir því sem Fiskistofa segir.
Fiskveiðiárið stendur frá 1. september hvers árs til 31. ágúst næsta árs og þegar horft er til fyrstu tveggja mánaða fiskveiðiársins 2007/2008 er aflinn 38 þúsund tonnum minni en fyrstu tvo mánuði síðasta fiskveiðiárs. Aflaverðmæti hefur þó dregist hlutfallslega meira saman miðað við fast verð vegna tæplega 10 þúsund tonna samdráttar í þorskafla.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst