Þórður Rafn Sigurðsson, formaður Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, er mjög óhress með frumvarp Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um veiðar á skötusel. „Þetta, að taka eina sort út úr og hefja fyrningarleið á tegund sem fer 80% fram úr ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, er með ólíkindum. Þetta er klæðskerasaumað fyrir Grétar Mar því það eru u.þ.b. tveir mánuðir síðan hann keypti sér skötuselsúthald. Fyrrverandi Frjálslyndi flokkurinn getur vaðið uppi með Guðjón A. Kristinsson sem ráðgjafa í ráðuneytinu og Grétar sagði sjálfur í sjónvarpsfréttum að hann væri vel kunnugur Jóni Bjarnasyni ráðherra og gæti fengið upplýsingar beint frá honum.“