Lundaballið fór fram með pompi og prakt í Höllinni á laugardagskvöldið þar sem gestir voru um 400. Álseyingar tóku vel á móti gestum, klæddir í kjól og hvítt heilsuðu þeir fólki og voru aldeilis flottir þegar þeir stigu á stokk og hófu upp sína raust, rétt eins og þaulæfður karlakór í anda Fjallabræðra og sneru „Ísland er land þitt“ upp á Álsey og sungu líka „Höldum Lundaball“. Það gerist varla flottara og allir geisluðu Álseyingar af karlmennsku og hressileika er þeir hófu dagskrána.