Eftir miklar umræður á Alþingi í gær var samþykkt heimild til að láta fara fram útboð vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju. Í útboðinu skal valið standa milli þeirra kosta að gerður verði þjónustusamningur um smíði og rekstur skips til allt að tólf ára eða samið um smíði skips fyrir allt að 4,8 milljarða kr. á verðlagi í árslok 2015.
Vegagerðinni er heimilt, f.h. ríkissjóðs, að ganga að hagkvæmasta tilboði í annan hvorn kostinn, enda liggi fyrir fullnægjandi fjárheimildir til verkefnisins eða tryggt að samningur sé með skýrum fyrirvara þar um. Gert er ráð fyrir að ferjan verði tilbúin árið 2018 og á að henta betur til siglinga í Landeyjahöfn en núverandi Herjólfur.