Skrifað var undir nýjan kjarasamning á milli Sjómannasambands Íslands (SSÍ) og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í dag.
Binditími samningsins er styttur úr 10 árum í 5 ár, en hægt verður að segja upp samningi með kosningu eftir 5 ár. Uppsagnarfrestur hans er 12 mánuðir. Ef samningi er ekki sagt upp eftir 5 ár er næst hægt að segja upp eftir 7 ár. Þá er uppsagnarfrestur 6 mánuðir.
Ef samningi er ekki sagt upp gildir hann í 10 ár. Að sögn Kolbeins Agnarssonar formanns Jötuns – sjómannafélags, er þetta mikilvæg breyting frá fyrri samningi sem var bundinn í 10 ár.
Þá hefur grein 1.39 verið lagfærð. Tekið er út að samningsbundinn gerðardómur leysi úr ágreiningi sem komið getur upp milli aðila vegna ákvæðisins. Í staðinn skipa samningsaðilar hlutlausa nefnd sem hefur það hlutverk. Greinin hefur verið í kjarasamningi sjómanna frá árinu 2004, en hingað til hefur vantað ferli til að leysa úr ágreiningi.
Ísun yfir kör sem fara í gáma til sölu erlendis verður ekki á hendi skipverja nema í neyðartilvikum, samkvæmt nýjum samningi. Sé afli settur í gáma til sölu erlendis skal
útgerðarmaður semja við löndunargengi á staðnum um að ísa yfir körin sem fara í gámana, eigi skipverjar frí við löndun skv. kjarasamningi.
Í neyðartilvikum, ef löndunargengi getur ekki tekið verkið að sér, geta útgerð og skipverjar samið um að skipverjarnir ísi yfir körin sem fara í gámana gegn greiðslu m.v. yfirvinnutaxta skv. kaupskrá. Þetta atriði um yfirísun er viðbót frá fyrri samningi.
Kauptrygging og kaupliðir hækka í samræmi við laun á almennum vinnumarkaði frá því að síðasti samningur rann út, 1. desember 2019.
Þá er deilitalan í kauptrygginguna lækkuð úr 173,3 í 156,0 til að finna tímakaup – sem þýðir að vinnuskylda sjómanna er færð úr 40 klst. á viku í 36 klst. á viku þegar þeir sinna vinnu í landi á móti kauptryggingu.
Auk þess er í samningnum samið um að kauptrygging og aðrir kaupliðir hjá sjómönnum taki sömu hækkunum og laun landverkafólks á samningstímanum.
Að sögn Kolbeins fá félagsmenn 400.000 kr. eingreiðslu frá útgerðarfélögum verði samningur samþykktur. Þetta er viðbót frá fyrri samningi og bein kjarabót fyrir sjómenn.
Þá má nefna að framlag í lífeyrissjóð hækkar úr 12% í 15,5%. Þá nefnir Kolbeinn að í nýju samningunum verði aukið gagnsæi í uppgjöri til sjómanna.
Einnig verða stærðarmörk skipa færð úr brúttórúmlesta viðmiði yfir í skráningarlengd í metrum. Samhliða þessu er flokkum í skiptatöflum fyrir hverja veiðigrein fækkað og samningarnir þar með einfaldaðir.
Þá skal útgerð greiða fastráðnum skipverjum, og skipverjum sem ráðnir eru í reglulegar afleysingar, desemberuppbót ár hvert, fyrst þann 15. desember 2028. Full uppbót miðast við 160 lögskráningardaga eða fleiri. Ef lögskráningardagar eru færri skerðast greiðslur
hlutfallslega.
Nýi samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstunni, en rafræn atkvæðagreiðsla um hann hefst á hádegi 12. febrúar og lýkur föstudaginn 16. febrúar klukkan 15:00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst