Tveir geislafræðingar frá Krabbameinsfélaginu fóru til Eyja með röngtentæki fyrir brjóstamyndatökur í síðustu viku, til að sinna skimuninni, en sneru aftur til Reykjavíkur fyrr en áætlað var þar sem bókanir voru langt undir væntingum. Af þeim 500 konum sem fengu boð um að taka þátt í skimuninni bókuðu einungis um 100 konur tíma.
„Þessi dræma þátttaka er mikil vonbrigði fyrir okkur því auk þess að senda konunum bréf, auglýstum við þetta hressilega á samfélagsmiðlum og fengum góð viðbrögð,“ segir Halldóra Hálfdánardóttir, deildarstjóri Leitarstöðvarinnar.
Góð mæting hefur verið í reglulega skimun fyrir brjóstakrabbameini á landsbyggðinni það sem af er árinu. Skimunin fram með 1-2 ára millibili, mismunandi eftir stöðum en er framkvæmd árlega í Vestmannaeyjum.
Halldóra hvetur þær konur sem ekki mættu í skimunina í síðustu viku að panta tíma í brjóstamyndatöku á Leitarstöðinni næst þegar þær eiga leið í bæinn. Ekki sé gott að bíða í heilt ár þar til skimun fari aftur fram í Eyjum.
„Eitt ár getur skipt sköpum og eftir því sem lengra líður er erfiðara að meðhöndla og eiga við krabbamein fari það af stað á annað borð,“ segir Halldóra.
Hægt er að panta tíma á Leitarstöðinni hér og í síma 540 1919 kl. 8-15:30 virka daga.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst