Í síðustu viku lauk LAXEY hlutafjáraukningu upp á 5 milljarða króna, sem samsvarar um 35 milljónum evra. Þetta er stórt skref í átt að markmiði félagsins um að ná árlegri framleiðslu upp í 10.000 tonn af hágæða landeldislaxi. Jafnframt hefur fyrirtækið gert langtímasamkomulag við Arion banka sem felur í sér bæði endurfjármögnun og stækkun á lánalínum vegna fyrsta áfanga verkefnisins, ásamt nýrri lánsfjármögnun til að styðja við framkvæmdir í öðrum áfanga.
Heildarfjármögnun sem tryggð hefur verið með þessari blönduðu hlutafjár- og lánsfjármögnun nú, nemur alls 19 milljörðum króna (130 milljónir evra), sem endurspeglar mikið traust fagfjárfesta á framtíðarsýn félagsins. LAXEY hefur frá stofnun safnað yfir 17 milljörðum króna í hlutafé. Þessar upplýsingar koma fram í nýrri fréttatilkynningu á vefsíðu fyrirtækisins.
Hlutafjáraukningin vegna áfanga tvö var borin uppi af núverandi hluthöfum, en öflugir nýjir fjárfestar komu einnig að verkefninu. LAXEY hefur á að skipa mjög fjölbreyttum og reynslumiklum hluthafahóp, sem samanstendur af bæði erlendum og innlendum fjárfestum og er fjölskylda Sigurjóns Óskarssonar í Vestmannaeyjum áfram leiðandi fjárfestir í félaginu. Þá er um 20% hlutur er í eigu innlendra og erlendra aðila með mikla reynslu í fiskeldi sem spannar alla virðiskeðju laxeldis – frá fóðri til sölu og markaðsstarfs.
„Við finnum fyrir miklum áhuga og áframhaldandi trausti til verkefnisins, bæði frá núverandi og nýjum fjárfestum,“ segir Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður LAXEY. „Það er skýr vísbending um að framtíðarsýn okkar – sjálfbært og fjárhagslega sterkt landeldi – eigi fullt erindi bæði í íslenskan sjávarútveg og á alþjóðamarkaði. Sá árangur sem þegar hefur náðst, þar á meðal möguleikinn á tekjumyndun snemma í ferlinu með sölu á stórseiðum, ásamt þeim áhuga sem við finnum frá fjárfestum, staðfestir að við erum á réttri leið.“
Lesa má tilkynninguna í heild sinni hér.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst