ICEWEAR hefur starfað frá árinu 1972 og lagt áherslu á útivistarfatnað yst sem innst. Vegur Icewear hefur vaxið með hverju ári og er orðið eitt öflugasta fyrirtækið á þessu sviði hér á landi. Icewear opnaði í Vestmannaeyjum árið 2017, fyrst í Básum en er í dag í glæsilegu og rúmgóðu húsnæði í Baldurshaga við Bárustíg. Flutti þangað árið 2021 og stækkaði þá verulega við sig og býður nú upp á allt sem Icewear hefur upp á að bjóða, allt frá fyrsta f lokks útistarfatnaði til smæstu nytjahluta. Í dag stýrir Tinna Ósk Þórsdóttir versluninni að miklum skörungsskap. „Ég er 34 ára gömul, fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Er gift Val Smára Heimissyni og saman eigum við þrjú börn. Þau Hákon Þór 13 ára, Hinrik Frey, 7 ára og Unu Marín 3 ára og hundinn Bruno,“ segir Tinna Ósk sem er menntuð í félagsvísindum og byggðafræði og er einnig með einkaþjálfararéttindi. „Lengst af hef ég verið að þjálfa, bæði hjá Hressó og svo nýverið hjá Metabolic Eyjum þar sem ég er meðeigandi. Ég starfaði lengi sem móttökustjóri hjá HSU en áður en ég hóf störf hjá Icewear var ég að vinna á leikskólanum Sóla sem er dásamlegur vinnustaður,“ bætir hún við.
Af hverju Icewear?
„Ég sá starf verslunarstjóra auglýst og ákvað að prófa að sækja um. Eftir viðtöl var ég mjög spennt fyrir starfinu, mér þykir gaman að breyta til, ögra sjálfri mér og læra nýja hluti. Einnig er mórallinn og stemningin hjá Icewear skemmtileg og það höfðar mikið til mín. Svo eru fötin líka bara svo æðisleg, það er smá vandamál stundum því ég geri lítið annað en að kaupa á mig og fjölskylduna og kem alltof oft heim með gjafir.“
Hvernig lýst þér á starfið?
„Mjög vel, ég er spennt fyrir komandi tímum. Magnea Jóhannsdóttir hefur haldið úti frábærri búð sem er gott að taka við nú þegar hún fer að hugsa um krílið sitt. Það er nóg að gera og ég er að læra margt nýtt, það líkar mér vel.“
Staða Icewear í Eyjum?
„Hún er mjög góð. Við erum í mjög góðu samstarfi við ÍBV og Golfklúbb Vestmannaeyja með íþróttaviðburði, og erum svo einn af aðalstyrktaraðilum Þjóðhátíðar sem er virkilega skemmtilegt verkefni. Verslunin í Eyjum er stór og vegleg og býður upp á mikið úrval af útivistarfatnaði og aukahlutum, sem og hversdagsfatnaði fyrir bæði börn og fullorðna. Einnig bjóðum við upp á gott úrval af garni sem hefur verið að koma virkilega sterkt inn. Hjá okkur ættu því allir að f inna eitthvað fyrir sína útivist, allt frá göngutúr með hundinn upp í hlaup og fjallgöngur. Við hvetjum alla til að kíkja við og skoða úrvalið því sjón er sögu ríkari.“
Hefur búðin í Eyjum einhverja sérstöðu?
Sérstaða Icewear almennt, er mikið úrval og góð verð. Útivist er fyrir alla, ásamt framúrskarandi þjónustu sem við leggjum okkur fram um að veita á hverjum degi. Við erum mjög stolt af því að geta boðið fólki að eignast góðan og flottan útivistarfatnað á sanngjörnu verði. Einnig erum við dugleg við að gera extra vel við vini Icewear með flottum sérkjörum og spennandi sértilboðum.
Eru Eyjamenn góðir kúnnar?
„Já mjög. Það er alltaf gaman að taka á móti Eyjamönnum og þeir kunna að meta það sem við höfum upp á að bjóða,“ sagði Tinna Ósk verslunarstjóri.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst