Þjóðhátíðarhelgin í Vestmannaeyjum fór af stað með krefjandi veðurskilyrðum á föstudag. Á laugardag mættust ÍBV og KR í meistaraflokki karla í knattspyrnu á heimavelli ÍBV þar sem heimamenn fóru með góðan sigur af hólmi. Fagnaðarlætin urðu þó ekki löng hjá fyrirliða ÍBV sem tók að sér nýtt hlutverk þegar óvæntar aðstæður sköpuðust eftir leik.
Sjá einnig: Eyjamenn sigruðu Þjóðhátíðarleikinn
Strax að leik loknum bárust fregnir þess efnis að ferðum Herjólfs frá Eyjum hefði verið aflýst vegna aðstæðna í Landeyjahöfn. Á stærstu ferðahelgi ársins í Eyjum, þar sem öll gistirými voru löngu uppbókuð, kom upp sú staða að leikmenn og þjálfarar KR, dómarar frá KSÍ og tökulið Sýnar höfðu hvergi höfði að halla. Þá kom til kasta fyrirliðans hjá ÍBV sem hafði samband við Lilju Björgu Arngrímsdóttur, starfsmannastjóra Vinnslustöðvarinnar í Eyjum og kannaði hvort mögulegt væri að veita einhverja aðstoð.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Í boði voru gistirými í nýlegum vinnubúðum sem settar höfðu verið upp fyrir starfsmenn verktaka við byggingu nýrrar fiskvinnslu, en þar sem framkvæmdir liggja niðri yfir þjóðhátíðina var hægt að útvega ÍBV gistingu. Starfsmenn Vinnslustöðvarinnar, þau Lilja Björg og Hannes Kristinn Sigurðsson, tóku að sér að undirbúa herbergin og tóku á móti hópnum, á þriðja tug manna sem fengu gistingu í vinnubúðunum.
Sum herbergin voru tvímönnuð með vindsængum á gólfi, en allir gátu látið fara vel um sig. Margir úr hópnum nýttu tækifærið og kíktu í Dalinn á Þjóðhátíðina áður en þeir héldu aftur til lands með Herjólfi kl. 5:30 á sunnudagsmorgni. Tökumenn Sýnar voru áfram í Eyjum til að undirbúa beina útsendingu frá hinum sívinsæla brekkusöng.
Í samtali við Eyjafréttir segir Lilja Björg að Vinnslustöðin sendi gestunum hlýjar kveðjur og þakkir fyrir komuna og ekki síður hamingjuóskir til ÍBV með sigurinn á KR.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst