Kvennalið ÍBV vann stórkostlegan 4-1 heimasigur á HK í 16. umferð Lengjudeildar kvenna í kvöld. ÍBV er því Lengjudeildarmeistari 2025 en HK var eina liðið sem átti möguleika á að ná ÍBV að stigum.
Fyrri hálfleikurinn var frekar bragðdaufur en Eyjakonur voru samt sem áður sterkari aðilinn. Bæði lið voru að skapa sér færi en hvorugu liðinu tókst að koma boltanum í netið. Staðan því 0-0 í hálfleik.
Það voru ekki nema fimm mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar markadrottngin Allison Lowrey var búin að koma ÍBV í 1-0. Hún var þá sloppin ein í gegn og skaut að marki HK. Markvörður HK varði frá henni en hún tók sjálf frákastið og kom boltanum í netið. Hún var svo aftur á ferðinni þremur mínútum síðar. Hún fékk þá góða sendingu inn fyrir vörn HK og kláraði með góðu skoti. Lowrey fullkomnaði þrennu sína á 63. mínútu leiksins þegar hún skoraði af öryggi úr vítaspyrnu. Eyjakonur bættu við fjórða markinu tíu mínútum fyrir leikslok. Allison átti þá flottan sprett upp vinstra megin og kom sér í skotfæri. Markvörður HK varði frá henni en Olga Sevcova fylgdi fast á eftir og kom ÍBV í 4-0. HK minnkaði muninn í uppbótartíma með marki beint úr aukaspyrnu. Frábær 4-1 sigur Eyjakvenna staðreynd og efsta sætið í höfn þegar enn eru tveir leikir eftir.
ÍBV eru nú með 43 stig á toppnum en HK er í 2. sæti með 32 stig og eru í harðri baráttu við Grindavík/Njarðvík og Gróttu um sæti í Bestu deildinni. Fylkir og Afturelding féllu úr Lengjudeildinni í kvöld.
Næsti leikur ÍBV er heimaleikur við ÍA fimmtudaginn 28. ágúst kl. 18:00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst