Skólameistarar íslenskra framhaldsskóla lýsa yfir alvarlegum áhyggjum af fyrirhuguðum kerfisbreytingum sem færa fjármála- og mannauðsvald frá skólunum og telja þær ógna sjálfstæði og fagmennsku skólastarfsins.
Þeir gagnrýna skort á samráði og gagnsæi í ferlinu, telja breytingarnar ekki stuðla að bættri þjónustu við nemendur og starfsfólk og benda á að kostnaður við nýjar stjórnsýslueiningar sé óljós og dýr. Skólameistarar eru reiðubúnir til málefnalegs samtals en geta ekki stutt núverandi áform og hvetja stjórnvöld til endurskoðunar og raunverulegs samráðs áður en ákvörðun er tekin. Lesa má yfirlýsingu þeirra í heild sinni hér að neðan.
Við skólameistarar íslenskra framhaldsskóla lýsum yfir alvarlegum áhyggjum af þeim hugmyndum sem kynntar hafa verið um umfangsmiklar kerfisbreytingar á stjórnsýslu framhaldsskóla.
Miðað við þær upplýsingar sem við höfum ályktum við eftirfarandi:
- Sjálfstæði og fagmennska
Framhaldsskólakerfið á Íslandi hefur byggst á trausti, virðingu og faglegum vinnubrögðum. Sjálfstæði skólanna og fagleg forysta skólameistara hefur reynst öflug forsenda árangurs. Að færa fjármála- og mannauðsvaldið frá skólunum er að okkar mati ógn við þetta sjálfstæði og þar með gæði skólastarfs.- Áhrif á nemendur og starfsfólk
Breytingarnar þær sem kynntar hafa verið virðast fyrst og fremst miða að því að draga úr faglegu starfi og sjálfstæði skólanna en ekki að efla þjónustu við nemendur og starfsfólk. Við höfum áhyggjur af því að nýtt stjórnsýslustig muni veikja skólasamfélögin, draga úr nýsköpun og minnka sveigjanleika í námsframboði.- Ósk um samráð
Það er óásættanlegt að svo róttækar kerfisbreytingar séu kynntar án raunverulegs samtals við þá sem best þekkja starfsemi framhaldsskólanna. Aðferðafræðin hefur einkennst af skorti á gagnsæi og efnislegum rökum. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið sjáum við ekki að þessi leið sé til þess fallin að bæta gæði náms eða skólastarfsins í heild. Mikilvægt er að vönduð gögn liggi til grundvallar svona ákvörðun en engin gögn hafa verið birt skólameisturum.- Kostnaður og forgangsröðun
Ekki verður annað séð en að þær hugmyndir um stofnun nýrra stjórnsýslueininga sem nú liggja fyrir virðist bæði dýrar og illa rökstuddar. Í stað þess að byggja upp nýtt skrifræðislíkan ætti að efla núverandi skólastarf, tryggja fullfjármögnun og bæta þjónustu með markvissum hætti.
Niðurstaða
Skólameistarar eru nú sem ávallt reiðubúnir til málefnalegs samtals um umbætur í framhaldsskólakerfinu. Okkar markmið er að þróa kerfið áfram í þágu nemenda og starfsfólks skólanna – með því að byggja á fagmennsku og reynslu þeirra sem starfa innan skólanna.
Við getum ekki stutt fyrirhugaðar breytingar í núverandi mynd. Við hvetjum stjórnvöld til að endurskoða áformin og hefja raunverulegt samráð áður en ákvarðanir um svo veigamikla kerfisbreytingu eru teknar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst