Karlalið ÍBV í handbolta tók á móti Þór í fjórðu umferð Olís deildarinnar í Eyjum í dag. Eyjamenn sigruðu leikinn nokkuð örugglega 30-24. Eyjamenn byrjuðu leikinn betur og komust í 3-0. Þórsarar náðu mest að minnka muninn í eitt mark en Eyjamenn leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 17-13.
Eyjamenn komu af krafti inn í seinni hálfleik og voru mest sjö mörkum yfir. Þegar um tíu mínútu voru til leiksloka náðu Þórsarar að minnka muninn í fjögur mörk en nær komust þeir ekki. Lokatölur 30–24 ÍBV í vil. Petar Jokanovic átti mjög góðan leik í marki ÍBV og varði 17 skot. Morgan Goði Garner varði 1 skot. Elís Þór Aðalsteinsson var markahæstur í leiknum með 7 mörk.
Eftir fjórar umferðir eru Eyjamenn í þriðja sæti með sex stig. Þórsarar hafa einungis unnið einn leik og eru í 10. sæti með 2 stig.
Mörk ÍBV : Elís Þór Aðalsteinsson 7 mörk, Jakob Ingi Stefánsson 7, Sveinn José Rivera 4, Anton Frans Jónsson 4, Daníel Þór Ingason 3, Dagur Arnarsson 3, Andri Erlingsson 1, Ívar Bessi Viðarsson 1.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst