Framkvæmdir við Hásteinsvöll hófust á árinu en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir fjármagni til verksins á árinu 2024. Þar sem framkvæmdirnar töfðust voru fjárheimildir síðasta árs ekki nýttar.
Samkvæmt útboðum er heildarkostnaður við verkið áætlaður um 267 milljónir króna, en allur kostnaðurinn fellur á árið 2025. Af þeim sökum þurfti framkvæmda- og hafnarráð að óska eftir viðauka við fjárhagsáætlun til að mæta þeim útgjöldum sem áttu að falla til á árinu 2024.
Framkvæmda- og hafnarráð samþykkti að óska eftir slíkum viðauka til bæjarráðs og fól framkvæmdastjóra að fylgja málinu eftir. Í framhaldinu tók bæjarráð Vestmannaeyja málið fyrir og samþykkti samhljóða fjárfestingarviðauka að fjárhæð 177 milljónir króna vegna framkvæmda við Hásteinsvöll. Viðaukinn er fjármagnaður með tilfærslu innan fjárhagsáætlunar.
Auk þessa hefur framkvæmda- og hafnarráð ákveðið að hefja undirbúning að útboði vegna flóðlýsingar á Hásteinsvelli. Framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar hefur verið falið að vinna drög að útboðsgögnum og kynna þau á næsta fundi ráðsins.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst