Ísfisktogararnir í Síldarvinnslusamstæðunni hafa allir landað í vikunni sem er að líða. Á vef Síldarvinnslunnar er greint frá veiðiferðum hvers þeirra.
Þar kemur fram að Vestmannaey VE hafi landað í heimahöfn í Eyjum á mánudaginn. Skipið var með fullfermi og lét skipstjórinn, Egill Guðni Guðnason, vel af sér. „Þetta var fínn túr og veðrið var þokkalegt. Við vorum að veiðum í Sláturhúsinu, í Breiðamerkurdýpi og á Ingólfshöfðanum. Við álpuðumst til að vera á réttum stað á réttum tíma og allsstaðar reyndist vera ágætis nudd. Fiskurinn sem fékkst var góður og þorskurinn var af stærstu gerð. Meirihluti aflans var ýsa en síðan var þetta þorskur og fleiri tegundir,” sagði Egill Guðni.
Bergey VE landaði í heimahöfn á þriðjudaginn. Jón Valgeirsson skipstjóri var brattur að lokinni veiðiferðinni. „Við lögðum áherslu á að fá ýsu og síðan blandaðan afla. Það gekk þokkalega. Langmest af aflanum var ýsa og síðan var þetta einnig þorskur og koli. Við hófum veiðar á Tangaflakinu en síðan var farið á Gletting, Gula teppið og í Sláturhúsið. Það var síðan restað á Ingólfshöfðanum. Veður var sæmilegt og í Sláturhúsinu vorum við í góðu skjóli,” sagði Jón.
Jóhanna Gísladóttir GK landaði í Grindavík á þriðjudag. Aflinn var mest þorskur en einnig ýsa og ufsi. Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri sagði að um væri að ræða góðan fisk. „Við vorum norður á Hala, á Kögurgrunni og í Þverálnum. Sannleikurinn er sá að á þessum slóðum var kominn vetur. Það fiskaðist mjög vel á fyrsta degi túrsins en síðan dró mjög úr veiðinni. Það hafði verið gott fiskirí þarna og við náðum í restina á því. Ég geri ráð fyrir að næst verði haldið austur fyrir land vegna veðurútlits,” sagði Einar Ólafur.
Gullver NS landaði á miðvikudag í heimahöfn á Seyðisfirði. Hjálmar Ólafur Bjarnason skipstjóri sagði að veður hefði strítt mönnum verulega í túrnum. „Við hófum veiðar í Seyðisfjarðardýpinu. Það var góð veiði í fyrstu en síðan brældi og þá var flúið inn á Norðfjörð og legið þar í vari í sólarhring. Síðan var flakkað um nokkrar ýsubleyður; farið á Gerpisflak, Gula teppið og veitt við Hvalbakshólfið. Í sannleika sagt var ýsan heldur treg og sagt er að hún gangi ekki út frá landinu fyrr en kólnar. Meirihluti aflans í túrnum var þorskur en við vorum með tæp 30 tonn af ýsu,” sagði Hjálmar Ólafur.
Vestmannaey og Bergey héldu til veiða á ný í gær, en bæði Jóhanna Gísladóttir og Gullver létu úr höfn fljótlega eftir að löndun lauk.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst