Í kvöld fer fram afhending Íslensku menntaverðlaunanna 2025 á Bessastöðum. Verðlaunin verða veitt fyrir framúrskarandi skólastarf, verkefni og kennslu og verða afhent í sérstökum þætti á RÚV kl. 20.15.
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (FÍV) er meðal tilnefndra í ár, fyrir framúrskarandi starf í kennslu málm- og vélstjórnargreina. Tilnefningin er í flokknum Iðn- eða verkmenntun, þar sem einnig eru tilnefnd Fataiðndeild Tækniskólans og Unnar Þorsteinn Bjartmarsson, grunn- og framhaldsskólakennari við Grunnskóla Borgarfjarðar og Fjölbrautaskóla Vesturlands.
Hefðbundnu námi hefur verið umbreytt í verkefna- og atvinnutengt nám
FÍV hefur á undanförnum árum byggt upp öflugt og nútímalegt nám í málm- og vélstjórnargreinum. Í samfélagi þar sem sjávarútvegur og iðnaður eru hornsteinar atvinnulífsins hefur skólinn þróað kennslu sem stenst ströngustu gæðakröfur og er í fremstu röð á landsvísu.
Í umsögninni um tilnefningu Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum segir: Fyrir nýstárlega nálgun í málm- og vélstjórnargreinum þar sem hefðbundið nám hefur verið umbreytt í verkefna- og atvinnutengt nám.
Íslensku menntaverðlaunin eru samstarfsverkefni fjórtán aðila undir forystu forseta Íslands, og endurspegla sameiginlega sýn menntasamfélagsins á mikilvægi faglegs metnaðar og umbóta í skólastarfi. Þau verða eins og áður segir afhent í kvöld klukkan 20.15.
Þessu tengt: Sterk staða verkmenntunar í Eyjum




























