Bæjarráð Vestmannaeyja hefur samþykkt samhljóða að bærinn taki þátt í verkefni sem snýr að því að kanna fýsileika jarðganga milli lands og Eyja. Óskað hefur verið eftir aðkomu bæjarins að félagi sem standa á fyrir fjármögnun og framkvæmd jarðlagsrannsókna vegna mögulegra Eyjaganga, og hafa forsvarsmenn félagsins kynnt áform félagsins fyrir bæjarstjórn.
Stofnframlag Vestmannaeyjabæjar verður allt að 30 milljónir króna, verði bærinn formlegur aðili að félaginu. Í tengslum við málið lagði bæjarráð fram fjárfestingarviðauka að fjárhæð 30 milljónir króna, sem felur í sér framlag bæjarins í stofnfé félagsins. Viðaukinn er fjármagnaður með handbæru fé sveitarfélagsins.
Þessu tengt: Jarðrannsóknir milli lands og Eyja í bígerð
Um er að ræða framhald af vinnu starfshóps innviðaráðherra um fýsileika jarðganga. Bæjarráð áréttar mikilvægi þess að verkefnið verði áfram unnið í nánu samstarfi við Vegagerðina og innviðaráðuneytið. Framlag bæjarins verður lagt fram þegar stofnaðilar og samþykktir félagsins liggja endanlega fyrir. Bæjarráð samþykkti viðaukann samhljóða.
Sjá einnig: Jarðgöng: Leggja til þrepaskipta rannsókn
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir á Facebook-síðu sinni í dag að það skipti sköpum að grunnrannsóknir á jarðlögum fyrir möguleg Eyjagöng klárist svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um næstu skref í samgöngumálum Eyjanna.
Íris áréttar að hvorki Vestmannaeyjabær né félagið Eyjagöng hafi krafist þess að jarðgöngin fari inn á gangnalista samgönguáætlunar. „Þetta verkefni yrði framkvæmt með öðrum hætti, enda ólíkt öðrum gangaverkefnum,“ segir hún.
Hún segir hins vegar nauðsynlegt að ríkið komi að grunnrannsóknum með fjármögnun, líkt og gert hafi verið ráð fyrir þegar skýrsla starfshóps innviðaráðherra um fýsileika jarðganga var kynnt. Þá minnir hún á að fyrir síðustu alþingiskosningar hafi oddvitar allra framboða í Suðurkjördæmi verið sammála um að ríkið ætti að taka þátt í rannsóknunum.
„Nú er kominn tími á að standa við loforðin,“ segir bæjarstjóri að lokum.
Þessu tengt: Vel tekið í að tryggja fjármagn í rannsóknir