
Byrjum á að slá þessu föstu: Það er enginn málaflokkur þýðingarmeir í íslensku samfélagi en uppvöxtur, þroski og menntun barnanna okkar. Það er alveg sama hvað okkur tekst vel til á öðrum sviðum – ef okkur mistekst þarna er allt annað unnið fyrir gýg . Í mikilvægi fyrir þjóðina og framtíð hennar trompar þessi málflokkur allt annað; hvort sem það heitir verðbólga, stýrivextir, fiskveiðistjórnun, orkumál, ríkisfjármál, samgöngumál, húsnæðismál, Evrópumál eða hvað annað sem nöfnum tjáir að nefna.
Við erum í einstakri stöðu hér á Íslandi til að gera vel í þessum efnum. Ef fjögur ár í leikskóla eru talin með eru börnin okkar í fjórtán ár í ‘’skyldu’’ námi. Samt sem áður er okkur ekki að takast að skila þeim betur undirbúnum út í lífið til frekara náms en svo að stór hluti þeirra getur ekki lesið sér til gagns að loknum grunnskóla. Í hvað fóru þessi 14 ár? Af hverju hefur okkur mistekist svona hrapalega? Af hverju drögumst við stöðugt aftur úr öðrum þjóðum í þessum efnum?
Nýr ráðherra er að spyrja þessara sömu spurninga og viðurkennir að við sem samfélag erum í vanda með menntakerfið okkar. Það þýðir ekki að allt sé ómögulegt, þar er mjög margt gott í íslensku skólakerfi en við getum samt gert svo miklu betur.
Það er kominn tími á að við hættum að skammast og kenna öllum nema okkur sjálfum um stöðuna sem upp er komin. Menntakerfið með sínum kostum og göllum er mannannaverk. Börnin okkar eru ekki að hljóta þá menntun sem við viljum og þurfum á að halda sem samfélag. Það er staðreynd sem þarf að breyta.
Við höfum stigið skref hér í Eyjum til að gera betur fyrir nemendur og er þróunarverkefnið Kveikjum neistann flaggskipið okkar. Skólafólkið okkar er að gera frábæra hluti nemendur, foreldrar, bókasafnið og samfélagið allt tekur þátt. Kveikjum neistann er heildstæð breyting á skóladeginum og skipulagi hans – og þetta virkar. Við erum að vanda okkur og höfum alla tíð fylgst vel með og mælt væntingar og ánægju foreldra, kennara og barnanna. Þar erum við að sjá jákvæðar og ítrekað góðar niðurstöður. Verkefnið hefur kallað eftir því frá byrjun að fá meiri stuðningi við mælingar og ég myndi fagna því að fá meiri og betri stuðning frá menntakerfinu í þeim efnum. Það er mikilvægt að gera vel ef fleiri skólar og sveitarfélög vilja feta þessa leið.
Við getum verði ósamála um hvernig og hvað er sagt, með hvað hætti það er gert en er það í raun aðalmálið?
Takk Inga fyrir að setja menntun rækilega á dagskrá. Þetta eru stóru málin.
Íris Róbertsdóttir
Bæjarstjóri Vestmannaeyja