Íbúakosning samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum
Eyjafréttir/Eyjar.net: TMS
TMS An Bakgr
Tryggvi Már
Sæmundsson

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur samþykkt að efna til íbúakosningar um mögulega uppbyggingu á þróunarsvæðinu M2 í miðbæ Vestmannaeyja, sem fór undir hraun í gosinu árið 1973. Kosningin verður ráðgefandi og fer fram samhliða sveitarstjórnarkosningum laugardaginn 16. maí 2026. Málið var tekið fyrir á síðasta fundi bæjarstjórnar eftir að því var vísað þangað frá bæjarráði.

Lagagrundvöllur og aðdragandi

Í minnisblaði Drífu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs, sem lagt var fram með málinu, kemur fram að íbúakosningin sé heimil samkvæmt 107. grein sveitarstjórnarlaga og 60. grein bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyja. Framkvæmd kosningarinnar fer fram í samræmi við reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga nr. 922/2023.

Þar er rakið að bæjarstjórn Vestmannaeyja hafi á 1606. fundi sínum 7. maí 2024 samþykkt að kanna hug íbúa til þess hvort hefja skyldi vinnu við uppbyggingu M2-svæðisins áður en farið yrði í skipulagsvinnu. Upphaflega stóð til að halda íbúakosninguna samhliða alþingiskosningum, en þar sem þær urðu fyrr en áætlað var reyndist ekki nægur tími til undirbúnings. Í kjölfarið ákvað bæjarráð á fundi sínum 26. ágúst að kosningin færi fram með sveitarstjórnarkosningum vorið 2026.

Fyrirkomulag kosningar

Samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyja verður íbúakosningin ráðgefandi og ekki bindandi. Markmiðið er að tryggja lýðræðislega þátttöku íbúa og veita bæjarstjórn skýra mynd af vilja þeirra áður en teknar verða ákvarðanir um mögulega uppbyggingu á svæðinu.

Kosningarétt í íbúakosningunni eiga þeir sem hafa kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum. Lágmarksaldur er 18 ár og miðast við þann dag sem einstaklingur nær þeim aldri. Kjörskrá verður því sú sama og notuð er í sveitarstjórnarkosningunum.

Kjörstjórn verður sú sama og sér um sveitarstjórnarkosningar og var skipuð af bæjarstjórn á 1584. fundi hennar 9. júní 2022. Henni verður falið að annast undirbúning og framkvæmd kosningarinnar, þar á meðal ákvörðun um kjörstaði, kjördeildir, fyrirkomulag kosningarinnar og opnunartíma.

Spurningin

Spurningin sem borin verður upp hljóðar þannig: Ertu fylgjandi því að Vestmannaeyjar skoði möguleika á uppbyggingu á þróunarsvæðinu M2, sem fór undir hraun í gosinu 1973?

Skiptar skoðanir í bæjarstjórn

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu að þeir teldu íbúakosninguna með öllu ótímabæra, en legðust þó ekki gegn henni. Í bókun þeirra kemur fram að að þeirra mati hefðu önnur og fleiri verkefni hentað betur til íbúakosningar á síðustu tveimur kjörtímabilum, ef raunverulegur vilji hefði verið til að efla íbúalýðræði.

Bæjarfulltrúar E- og H-lista lýstu ánægju með að bæjarbúar fengju að segja hug sinn um mögulega uppbyggingu á M2-svæðinu. Í bókun þeirra kemur fram að mikilvægt sé að íbúar fái að hafa áhrif á ákvarðanir um framtíðaruppbyggingu sveitarfélagsins, sérstaklega á svæði þar sem skoðanir geti verið mjög skiptar. Jafnframt er áréttað að kosningin sé ráðgefandi og því ekki bindandi fyrir næstu bæjarstjórn.

Tillögur um fyrirkomulag íbúakosningarinnar og tillaga að spurningu voru samþykktar samhljóða með níu atkvæðum bæjarfulltrúa.

Nýjustu fréttir

Íbúakosning samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum
Nám sem tengir saman skóla, atvinnulíf og samfélag
Draumar æskuáranna rættust
ÍBV tapaði toppslagnum gegn Val
Handverksmenn sýna í Einarsstofu
Samninganefnd skipuð vegna endurskoðunar á Herjólfssamningi
Markmiðin eru skýr – að efla Vestmannaeyjar
Stórskipakantur mikilvægur í mögulegri fóðurframleiðslu
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.