Togarar Síldarvinnslusamstæðunnar hafa landað í sínum heimahöfnum síðustu dagana. Jóhanna Gísladóttir GK landaði í Grindavík á laugardag, Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu í Vestmannaeyjum í gær og Gullver NS er að landa á Seyðisfirði í dag.
Á fréttasíðu fyrirtækisins er farið yfir veiðiferðir skipanna. Einar Ólafur Ágústsson, skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttir, lét vel af sér. „Við lönduðum fullfermi í Grindavík og aflinn var mest karfi og steinbítur. Það var verið eina þrjá daga að veiðum. Við byrjuðum út af Látrabjargi en síðasta daginn var veitt í Jökuldýpinu. Það var mokkarfaveiði í Jökuldýpinu og fengust þar um 30 tonn í þremur mjög stuttum holum. Við erum bara brattir með túrinn,” sagði Einar Ólafur. Jóhanna Gísladóttir hélt á ný til veiða á laugardagskvöld.
Vetmannaeyjatogararnir komu til hafnar í gær vegna veðurs og lönduðu um 30 tonnum hvor. Að sögn Arnars Richardssonar rekstrarstjóra skipanna hefur verið skítabræla fyrir sunnan land. „Það hefur verið austanátt og virkilegt leiðindaveður. Togararnir komu inn vegna veðursins en afli þeirra var mest ýsa og þorskur. Gert er ráð fyrir að þeir haldi til veiða á ný á fimmtudag,” sagði Arnar.
Hjálmar Ólafur Bjarnason, skipstjóri á Gullver, sagði að aflinn hefði verið um 90 tonn, mest þorskur og örlítið af ýsu með. „Við vorum alllengi að finna einhvern fisk í þessum túr. Veitt var alveg frá Skrúðsgrunni og norður á Digranesflak. Mjög trgt var framan af, en aflinn fékkst að mestu á Digranesflakinu,” sagði Hjálmar Ólafur. Gullver mun halda á ný til veiða á fimmtudag.