Ólafur Helgi Kjartansson hefur skamman frest til að ákveða hvort hann fellst á þá ákvörðun dómsmálaráðherra að flytjast til Vestmannaeyja og taka við embætti lögreglustjóra þar. Þetta kemur fram í frétt á vef fréttablaðsins.
Ráðherra hefur þegar beðið Ólaf Helga að setjast í helgan stein, án árangurs, en nú hefur hún ákveðið að færa hann til í starfi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, hefur tilkynnt Ólafi Helga Kjartanssyni lögreglustjóra á Suðurnesjum, um flutning hans til embættis lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.
Tilkynningin mun hafa komið til hans með formlegu bréfi þar sem fram kemur að flutningur Ólafs Helga til Eyja taki gildi strax um mánaðamótin, fallist hann á að flytjast af fasta landinu og hefur hann því skamman tíma til að taka afstöðu til þessara breytinga.
Hafni Ólafur breytingunum, kann að vera einfaldara fyrir ráðherra að gera við hann starfslokasamning. Ólafur Helgi verður 67 ára í september og er því kominn á leyfilegan eftirlaunaaldur.
Eins og greint var frá í fjölmiðlum í síðustu viku hefur ráðherra þegar óskað eftir því að hann láti af störfum hjá lögreglunni á Suðurnesjum, þar sem allt hefur logað í illdeilum undanfarna mánuði.
„Ég tjái mig ekki um það,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, inntur eftir upplýsingum um fyrirhugaðan flutning hans. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra hefur ekki svarað fyrirspurnum Fréttablaðsins um málið.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst