Í fyrrakvöld byrjaði að snjóa all hressilega í Vestmannaeyjum og er nú talsverður snjór í Eyjum. Hafa ruðningstæki og menn haft í nógu að snúast. Snjór er ekki óalgengur í Eyjum á þessum tíma en frost hefur verið óvenjumikið, níu stig á bílamæli í morgun. Í nótt og fram eftir morgni spáir suðaustan 14 metrum og snjókomu. Eitthvað hlýnar í bili en aftur kólnar og sér ekki fyrir endann á frostinu.
Eftirfarandi færslu setti Óskar Sigurðsson, fyrrum vitavörður í Eyjum inn á FB-síðu sína:
„Úrkoma síðasta sólarhringinn var 20,2 mm í Vestmannaeyjabæ en 0,0 mm á Stórhöfða. Illa komið fyrir Stórhöfða sem veðurathugunarstöð, getur ekki einu sinni mælt úrkomu í frosti og að sjálfsögðu ekki snjódýpt. Við veðuraðstæður eins og síðasta sólarhring hefur stunmdum orðið mesti snjórinn í Vestmannaeyjum. Nú er enginn á vegum Veðurstofu Íslands sem mælir snjódýpt í Eyjum.“
Mynd: Aðstandendur Miðbæjarfélagsins létu ekki kuldann og snjóinn trufla sig þegar nýja miðbæjarhliðið var vígt. Theódóra, formaður hafði orð fyrir hópnum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst