Skammtur tvö er komin í hús hjá LAXEY sem tók í dag á móti 600.000 hrognum sem er helmingur af afkastagetu klakstöðvarinnar. Hrognin eru frá Benchmark Genetics.

Þetta kemur fra á Facebókarsíðu félagsins sem er með starfsemi í Vestmannaeyjum. „Móttaka og vinnsla hrognanna gekk eins og við var að búast enda mikill undirbúningur og vinna sem á sér stað áður,“ segir á síðunni.

Sem stendur er framleiðslan í tveimur stigum af fjórum, klakstöðinni og RAS 1. Stefnt er að því að um áramót verði framleiðsla á öllum stigum seiðastöðvarinnar.

Laxey tók á móti fyrstu hrognunum 28. nóvember sl. segir í frétt á Eyjafréttum.is þann dag. „Fyrsti skammturinn er 315.000 hrogn  en í framtíðinni eigum við að geta tekið við allt að 1.200.000 hrognum í einu,“ segir Kristín Hartmannsdóttir verkefnastjóri. „Hrognin koma í frauðplastkössum og voru sótthreinsuð við komuna. Þau voru sett í klakskápana og þar eru þau í  84 daga. Eftir þessa 84 daga verða seiðin flutt yfir í startfóðrun, í svokölluðu RAS1 kerfi. Haustið 2024 stefnum við á að flytja seiði í áframeldið í Viðlagafjöru.“

Framkvæmdir eru á fullu á báðum stöðum og mörg handtök eftir en allt er á áætlun að því er kom fram hjá Kristínu. Um 120 manns koma að framkvæmdunum.

 

Myndir frá móttökuninni – Laxey.