Mannauðurinn er okkar dýrmætasta auðlind

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Vestmannaeyjar hafa í gegnum tíðina verið ríkar af hinum ýmsu auðlindum, hér áður fyrr voru björgin og úteyjarnar mikið forðabúr, þá líkt og nú voru fiskimiðin gjöful og mikilvæg auðlind, hugvitsmenn nýttu svo þær náttúruhamfarir sem gengu yfir eyjuna okkar til að kynda húsnæði Eyjamanna á tímabili og stórbrotin náttúra okkar, saga og menning er mikið og vaxandi aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustuna. Þessar stórkostlegu auðlindir jafnast hins vegar engan veginn á við þá ómetanlegu auðlind sem Vestmannaeyjar eru svo sannarlega ríkar af, mannauðinum.

Í Vestmannaeyjum lifa og starfa ógrynni fólks sem sinnir störfum sínum af metnaði og ósérhlífni á hverjum einasta degi til að tannhjól okkar hratt vaxandi samfélags haldi áfram að snúast. Fjöldi félagasamtaka og góðgerðarfélaga í samfélagi sem telur rétt rúmlega 4300 einstaklinga er líklega óviðjafnanlegur. Samfélagið býr yfir hæfileikafólki á flestum sviðum mannlífsins; á sviði lista, íþrótta, vísinda og margra fleiri greina eiga Eyjarnar fulltrúa í fremstu röð. Nú síðast í gær sýndi og sannaði ung Eyjakona enn og aftur hversu miklum baráttukrafti, þreki og þor Eyjamenn búa yfir.

Réttlætið sigrar að lokum
Ragnheiður Sveinþórsdóttir vann fullnaðarsigur í harðri, ósanngjarnri og í raun óskiljanlegri baráttu fjölskyldu sinnar við kerfið. Alls ekki ólíkt þeim fullnaðarsigri sem önnur Eyjakona, Fanney Björk Ásbjörnsdóttir náði fram á sínum tíma í sinni baráttu. Báðar þessar hugrökku Eyjakonur stigu fram, leyfðu almenningi að kynnast erfiðum reynsluheimi sínum í hatrammri baráttu við kerfið og þær hindranir í heilbrigðiskerfinu sem þær og fjölskyldur þeirra þurftu að yfirstíga. Mál þeirra fengu vissulega verðskuldaða athygli, umfjöllun og skilning sem að lokum varð þess valdandi að breyting varð á heilbrigðiskerfinu til hins betra sem mun koma fjölmörgum öðrum fjölskyldum og einstaklingum til góða til framtíðar.

Á sama tíma veit ég að fjölmargir heyja á hverjum degi nafnlausa baráttu við kerfið án þess að hljóta áheyrn og athygli alþingismanna og fjölmiðla. Megi afrakstur þrotlausrar vinnu m.a. þessa fyrirmyndarkvenna blása fólki byr í báða vængi í réttindabaráttu sinni.

Innilega til hamingju með árangurinn, innilegar þakkir fyrir ykkar hörðu baráttu og ykkar framlag til betra heilbrigðiskerfis á Íslandi. Ég er enn og aftur stolt af því og þakklát að vera Vestmannaeyingur á degi sem þessum.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum