Áformaðar uppsagnir framlínufólks skammarlegar

BSRB mótmælir harðlega áformum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands um að segja upp öllu starfsfólki í ræstingum á starfsstöð stofnunarinnar í Vestmannaeyjum. Stéttarfélögum hefur verið tilkynnt um að fyrirhugað sé að leggja niður starfsemi við ræstingar og fara í útboð á þjónustunni á næstu vikum.

„Það er skammarleg ákvörðun að segja upp starfsfólki sem hefur lagt líf og heilsu að veði í framlínunni í baráttunni við kórónaveiruna undanfarnar vikur,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Gríðarlegt álag hefur verið á þessu starfsfólki, eins og öðrum starfsmönnum í heilbrigðisþjónustunni. Nú þegar mikilvægi þeirra starfa ættu að vera öllum ljós ættu stjórnendur stofnunarinnar að leggja sig fram við að bæta kjör og starfsaðstæður þessa láglaunahóps í stað þess að afhenda þeim uppsagnarbréf.

„Þetta eru kaldar kveðjur frá yfirstjórn stofnunarinnar og við krefjumst þess að þessi ákvörðun verði dregin til baka. Það er óásættanlegt að þegar stofnanir grípa til hagræðingaaðgerða sé fyrst horft til tekjulægsta hópsins,“ segir Sonja. Hún segir að málið verði rætt á fundi sínum með forsætisráðherra á mánudag og að óskað hafi verið eftir fundi með heilbrigðisráðherra til að ræða starfsöryggi og starfsumhverfi starfsfólks heilbrigðisstofnana.

Ef tilgangurinn með því að segja upp þessum hópi er sparnaður er ljóst að stofnunin mun ekki ná honum fram á næstu árum. Eins og lög gera ráð fyrir þegar rekstur er tekinn yfir af öðrum aðila ber að tryggja starfsmönnunum störf á óbreyttum kjörum hjá þeim sem tekur við rekstrinum. Aðgerðin mun því ekki skila neinum sparnaði og einungis verða til þess að valda starfsfólki ama og óöryggi.

BSRB.IS

https://eyjafrettir.is/2020/05/14/uppsagnir-vid-hsu/
https://eyjafrettir.is/2020/05/14/baejarrad-skorar-a-yfirstjorn-hsu-ad-draga-aform-um-uppsagnir-til-baka/
 

Nýjustu fréttir

Foreign Monkeys gefa út þriðju breiðskífu sína – „III“
Úttekt á fasteignagjöldum ársins
Mikil gróska í fimleikastarfi og mót framundan
Hlutafjáraukning Eyjaganga langt komin
Áframhaldandi hvassviðri út vikuna  
Áætlun um rýmingu Heimaeyjar eftir að Surtsey fór að gjósa
Loðnu að finna á stóru svæði
Íbúakosning samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.