Smáforritið Agga, á vegum nýsköpunarfyrirtækisins Alda Öryggi, býðst íslenskum smábátasjómönnum þeim að kostnaðarlausu. Um er að ræða sérhannað öryggisstjórnunarkerfi, sem nútímavæðir, auðveldar og einfaldar allt utanumhald öryggismála smábáta. Forritið heldur öllum upplýsingum er varðar öryggismál bátsins á einum stað. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Nú eru leyfðir fleiri veiðidagar og má því búast við aukinni sjósókn á strandveiðunum. Til að tryggja öryggi sem best er mikilvægt að smábátasjómenn framkvæmi eigin skoðanir á bátnum og búnaði hans. Agga auðveldar þá vinnu alla og leiðir sjómenn í gegnum allt það sem mikilvægt er að athuga og hafa í huga hvað öryggi þeirra varðar. Í smáforritinu eru gátlistar sem leiða sjómenn í gegnum eigin skoðun og áhættumat á ástandi og öryggi bátsins. Gátlistarnir eru gerðir af Landssambandi smábátaeigenda, Samgöngustofu og Slysavarnaskóla sjómanna.
Í Öggunni geta sjómenn einnig skoðað ýmsa öryggisfræðslu til upprifjunar og framkvæmt nýliðafræðslu. Sömuleiðis geta smábátasjómenn tilkynnt sjóatvik eins og vélarbilun, strand, eld um borð eða slys á sjómönnum í ATVIK-sjómenn gengnum appið. Þær tilkynningar berast beint til Rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA) en lögbundið er að smábátasjómenn tilkynni slík atvik til þeirra. Mikilvægt er að það sé gert svo hægt sé að nýta upplýsingar um atvik í forvarnarskyni í öryggismálum til sjós.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst