Togararnir Bergey VE og Vestmannaey VE hafa landað tvisvar í Neskaupstað í þessarri viku. Þeir lönduðu fyrst á mánudaginn og síðan eru þeir að landa á ný í dag, að því er segir í frétt á vef Síldarvinnslunnar. Þar er rætt við skipstjórana og þeir spurðir tíðinda af veiðiskapnum.
Jón Valgeirsson á Bergey sagði að árið byrjaði rólega hvað aflabrögð varðar. „Í fyrri túrnum var byrjað á Pétursey og síðan á Ingólfshöfða en þar var lítið að hafa. Þá var haldið á Gula teppið og þar fengum við mest af þeim 46 tonnum sem landað var á mánudaginn. Haldið var út á ný strax að löndun lokinni en þá hafði veðrið versnað til muna. Í dag erum við að landa um 30 tonnum og er aflinn mest þorskur. Aflinn fékkst á Gula teppinu, Grunnfætinum og í Litladýpi,” sagði Jón.
Egill Guðni Guðnason á Vestmannaey sagði að fyrri túrinn hefði verið um þrír sólarhringar. „Við veiddum víða í honum og var hvergi mikið að hafa. Við byrjuðum á Ingólfshöfða og síðan var haldið í Lónsbugt, Berufjarðarál og á Hvalbakssvæðið. Undir lokin var tekið eitt hol í Reyðarfjarðardýpi og tvö á Gerpisflaki. Alls staðar var þetta þannig að það komu smáglennur yfir hádaginn en það var rólegt á öðrum tímum sólarhringsins. Aflinn í þessum fyrri túr var 37 tonn, mest þorskur og ýsa. Það var virkilegt skítaveður í seinni túrnum, einkum framan af. Aflinn í honum var 25 tonn, mest ýsa. Í seinni túrnum var veitt á Skrúðsgrunni og í Reyðarfjarðardýpi og þá voru tekin hol á Gerpisflaki og Tangaflaki,” sagði Egill Guðni.
Í dag verður skipt um hluta áhafna beggja skipa og munu þau halda til veiða á ný síðar í dag eða í kvöld.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst