Áskorun til Vestmannaeyinga 
Íris, tannlæknir.

Aðsend grein

Íris Þórsdóttir

Undirrituð hefur nú fylgst með í dágóðan tíma hve algengt það er að börn fái sleikjó í Herjólfi. Hefur henni verið sagt að þetta sé gert til þess að slá á ógleði hjá börnunum en einnig að þetta sé til þess að kaupa smá frið. Börnin séu jafnvel vel undir 2 ára sem stingur hvað mest tannlæknahjartað. Frá sjónarhorni tannlæknis þá er sleikjó óhollasta nammið á markaðnum, eða kannski eitt af tveimur, því “roll-on”-ið svokallaða í sjoppunni hjá ÍBV trónir með sleikjónum á toppnum (og vona ég að forsvarsmenn sjoppuinnkaupa ÍBV hnjóti um þetta og taki það úr sölu). 

En hvað veldur því að sleikjó sé svona óhollur?

Hann er auðvitað stútfullur af sykri, sem ýtir undir tannskemmdir, en það sem gerir hann svona óhollan er hvernig hann kemst í snertingu við munnholið og tennurnar. Hann er nefnilega þeim “kostum” gæddur að endast mjög lengi og liggur í munni barnanna frá 15 mínútum og jafnvel upp í klukkutíma. 

En hvað er til ráða? 

Eigum við að taka sleikjóinn af börnunum og segja þeim að harka af sér ógleðina í Herjólfi? 

Nú hef ég átt samtal við framkvæmdastjóra Herjólfs til þess að reyna að finna lausn á þessu vandamáli. Ég lagði til að Hap+ sleikjóinn yrði keyptur inn í sjoppuna til þess að bjóða upp á annan og betri valkost fyrir tannheilsu bæjarins. Óli framkvæmdastjóri steig upp og varð við ákalli tannlæknasamfélagsins í Vestmannaeyjum um að panta inn í sjoppuna tannvæna sleikjóa og eigum við honum miklar þakkir skildar fyrir það. Þessi sleikjó er íslenskt hugvit og hefur fengið gæðastimpil frá Tannlæknafélagi Íslands. 

Hann er ekki bara tannvænn heldur hefur hann einnig verið notaður sem ógleðimeðal fyrir óléttar konur og á meðan krabbameinsmeðferð stendur svo hann er tilvalinn kostur fyrir sjóferðir hvers kyns auk þess sem hann er bragðgóður og samþykktur af börnum ákveðins tannlæknis í bænum. 

Svo nú skora ég á ykkur Vestmannaeyinga, að velja hollari valkostinn fyrir börnin ykkar, svo minni líkur séu á því að ég eða annar tannlæknir muni þurfa að gera við tennurnar þeirra, sem eru svo dýrmætar. 

Íris Þórsdóttir, tannlæknir á Hlýju tannlæknastofu í Vestmannaeyjum 

Nýjustu fréttir

Áskorun til Vestmannaeyinga 
Skipar sjö manna fagráð
Skráning stendur yfir í Lífshlaupið
Foreldrar Elliða stolt á leið til Danmerkur
Dýpi ekki nægjanlegt í Landeyjahöfn — Herjólfur fer til Þorlákshafnar
Sigurmark ÍBV kom í blálokin gegn Fram
Andlát: Þórunn Pálsdóttir
Mílan Jezdimirovic skrifar undir samning við ÍBV
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.